Leynilegar viðræður milli yfirvalda í Kína og Bandaríkjunum, um leiðir til að liðka fyrir viðskiptum milli landanna, eru hafnar. Þær fara fram í skugga áforma Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að setja á sértæka tolla á ýmsar vörutegundir sem fluttar eru í stórum stíl til Bandaríkjanna, ekki síst frá Kína.
Frá þessu greinir Wall Street Journal, og fullyrðir að Liu He, yfirráðherra viðskiptasamninga Kína, leiði viðræðurnar fyrir hönd kínverska yfirvalda, en Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, leiði þær fyrir hönd Bandaríkjanna.
Óhætt er að segja að miklir hagsmunir séu í húfi þegar kemur að viðskiptasambandi þessara ríkja. Ekki er langt síðan að efnahagsráðgjafi Trumps, Gary Cohn, hætti störfum fyrir forsetann, og var ágreiningur um alþjóðaviðskipti og tollaáform sögð meginástæða þess að hann hætti störfum.
Trump administration expected to hit China with $60 billion in new tarrifs, say sources https://t.co/1w9BC3KYU7 pic.twitter.com/3ZpJGBwIPp
— NDTV (@ndtv) March 20, 2018
Trump hefur þegar boðað tolla á stál og ál, og einnig fleiri vörur, eins og þvottavélar og fleiri heimilistæki. Tollarnir á stál verða 25 prósent og á ál 10 prósent, en þeir munu ekki ná til allra landa. Evrópusambandið hefur þegar fengið undanþágu frá þessum áformum og Kanada og Mexíkó einnig. Þær eru hins vegar tímabundnar, en Trump hefur sagt, að hann vilji að bandarísk fyrirtæki noti bandaríska framleiðslu í sinni starfsemi. Lokamarkmiðið með tollunum á innflutning sé að styrkja við sköpun starfa í Bandaríkjunum.
Í umfjöllun Wall Street Journal segir að viðræðurnar milli Kína og Bandaríkjanna taki til margvíslegra geira atvinnulífsins, þar á meðal fjármálaþjónustu og framleiðslu af ýmsu tagi.