Ef ekkert verður að gert, mun sárlega vanta sjúkraliða í landinu, en þeir eru nú um tvö þúsund. Vanta mun um 900 sjúkraliða innan nokkurra ára, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Meðalaldur íslenskra sjúkraliða er 47 ár og hækkar ár frá ári. Rétt um helmingur þeirra 60-80 sem útskrifast úr sjúkraliðanámi á ári hverju fer til starfa við fagið. Sjúkraliðar eru einn stærsti hópurinn sem nýtir sér úrræði VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, en áður hefur verið greint frá því að örorka meðal sjúkraliða hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár.
Meðaltal veikindadaga sjúkraliða á ári eru 20,5 dagar, sem samsvarar um einum mánuði í vinnu, en mikið álag er meðal þess sem skýrir þessa stöðu.
Gunnar Örn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands, segir að ein ástæða þess að þeir sem læri til sjúkraliða skili sér ekki inn í starfið gæti verið mikil umræða um hversu mikið álag fylgi störfum í heilbrigðiskerfinu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Þessi misserin er unnið að mannaflaspá innan heilbrigðisráðuneytisins, þar sem staðan í hinum ýmsu greinum heilbrigðiskerfisins er greind og spáð fyrir um þörf á mannafla. Miklar áskoranir eru framundan fyrir íslenskt samfélag þegar að þessu kemur, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.