Eftir fjögurra mánaða tíma, þar sem verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðinu, er hún nú farin að skríða upp á við á nýjan leik. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 2,8 prósent, sem er það mesta í fjögur ár.
Í umfjöllun Hagstofu Íslands kemur fram að verðbólgan án húsnæðis er 388,1 stig og hækkar um 0,36% frá febrúar 2018, en með húsnæðinu er hækkunin 0,56 prósent. Hækkun húsnæðisverðs er því enn að þrýsta verðbólgunni upp á við.
Þá hafa endalok á útsölum, ekki síst á fatnaði og skóm, áhrif til hækkunar á verðbólguna. Hækkaði verð á fötum og skóm um 4,4% (áhrif á vísitöluna 0,15%). Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkar um 1,4% (0,29%).
Samkvæmt spá greinenda Arion banka er ekki gert ráð fyrir að verðbólgan sé að fara úr böndunum, eða aukast mikið á næstu misserum. „Útlit er fyrir að 12 mánaða taktur verðbólgunnar lækki á komandi mánuðum og fari í 2,5% í apríl. Við teljum líklegt að árstakturinn haldist í kringum verðbólgumarkmið fram á sumar. Þetta er í ágætu samræmi við okkar hagspá en þar er gert ráð fyrir að verðbólgan verði í kringum markmið fram á seinni hluta þessa árs og taki þá að stíga. Einnig er mögulegt að mælingar Hagstofu á fasteignaverði flökti eitthvað næstu mánuði þannig að eftir miklar verðhækkanir komi fram verðlækkanir í mælingu, og þá sérstaklega á landsbyggðinni þar sem viðskipti með fasteignir þar eru strjálari. Gögnin benda til talsvert meira flökts á þeirri undirvísitölu á milli mánaða en á verði fasteigna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Arion banka.
Þá er á það bent að samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með ýmsar vöru taki brátt gildi, og samkvæmt þeim muni tollar á mörgum vörum falla niður og skapa þannig möguleika á lægra vöruverði. „Samningar Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur taka gildi 1. maí 2018 og falla niður tollar á yfir 340 vörunúmerum, þ.á.m. súkkulaði, pizzum, pasta, bökunarvörum, villibráð, frönskum kartöflum og útiræktuðu grænmeti,“ segir í umfjöllun Arion banka.