Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur lokið skoðun á kvörtun sem varðar meinta ranga innleiðingu á tilskipun sem innleidd var í lög um neytendalán á Íslandi. Mat ESA er að gildandi tilskipun sé rétt innleidd en stofnunin getur ekki tekið afstöðu til innleiðingar eldri tilskipunar sem er fallin úr gildi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
„ESA getur ekki tekið afstöðu til laga sem eru ekki lengur í gildi á EES svæðinu eða á Íslandi og lokar því málinu í dag,“ segir Högni S. Kristjánsson, stjórnarmaður ESA.
Í tilkynningunni kemur fram að kvörtunin hafi snúist um framkvæmd verðtryggðra neytendalána á Íslandi og tvær tilskipanir. Kvartandinn taldi að framkvæmdin væri ekki í samræmi við reglur Evrópska Efnahagssvæðisins um upplýsingaskyldu lánveitenda varðandi kostnað vegna verðtryggingar. Með því hafi neytendum ekki verið veittar réttar upplýsingar um heildarlántökukostnað.
„ESA barst kvörtunin í nóvember 2016 sem er eftir að ný tilskipun um sama efni tók gildi á EES svæðinu og ný lög um neytendalán tóku gildi á Íslandi. ESA komst að þeirri niðurstöðu að núverandi tilskipun um neytendalán hafi verið rétt innleidd. Núverandi lög kveða á um að lánveitenda beri að upplýsa lánþega um heildarlántökukostnað. Í ljósi þessa getur ESA ekki aðhafst frekar.“