Sveitarfélögum landsins mun fækka eftir kosningar í maí og verða þá alls 72 talsins. Íbúar Breiðdalshrepps og Fjarðabyggðar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna laugardaginn 24. mars og 11. nóvember síðastliðinn hafði verið samþykkt sameining sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðis.
Íbúafjöldi í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis verða um 3.200 en heldur fleiri íbúar eru í Sandgerði eða um 1.700 á móti um 1.500 í Garðinum. Framundan er atkvæðagreiðsla um nýtt nafn hins sameinaða sveitarfélags en nokkrar tillögur um nafn verða lagðar fram í næsta mánuði. Nefnd sem undirbýr atkvæðagreiðsluna kallaði eftir tillögum frá íbúum og bárust alls 392 tillögur.
Íbúafjöldi Fjarðabyggðar eftir sameininguna við Breiðdalshrepp verður tæplega 5.000 en í dag búa í Fjarðabyggð kringum 4.800 íbúar og 182 í Breiðdalshreppi. Í Breiðdalshreppi samþykktu 100 manns sameininguna eða 85% þeirra sem greiddu atkvæði en á kjörskrá voru 155 og kjörsókn var 64,5%. Í Fjarðabyggð var 36% kjörsókn og samþykktu 87% sameininguna.
Árið 1950 voru sveitarfélögin 229 og hefur þeim fækkað í nokkrum skrefum.
Árin 1994 til 2006 var mikið um sameiningar og fækkaði sveitarfélögum þá úr 196 í 79 og síðan í 74 með síðustu sameiningum.