Heildargreiðslur erlendra ferðamanna til íslenskra heilbrigðisstofnana á árinu 2017 var rúmur milljarður króna og hefur á einu ári hækkað um meira en 200 milljónir. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi eiga rétt á neyðaraðstoð hjá hinu opinbera heilbrigðiskerfi hér á landi. Fyrir aðstoðina greiða þeir fullt gjald.
Langhæstar greiðslur ferðamanna í heilbrigðiskerfinu renna til Landspítalans eða tæplega 871 milljón krónur. Þar á eftir kemur Sjúkrahúsið á Akureyri en ferðamenn greiddu tæplega 100 milljónir í sjúkrakostnað þar í fyrra. Aðrar heilbrigðisstofnanir veita ekki jafn mikla þjónustu til erlendra ferðamanna, en þó þannig að það hleypur á milljónum króna sem innheimtar eru. Engar tölur fengust frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, en þar er almennt töluvert um ferðamenn á hverjum tíma.
Landspítalinn hefur á síðustu 10 árum innheimt tæplega 4,5 milljarða króna í greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu til erlendra ferðamanna sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi.
Heilbrigðisstofnanir sjá yfirleitt sjálfar um innheimtu sjúkrakostnaðar. Sem dæmi um ferli innheimtu er hjá Landspítalanum lögð mikil áhersla á staðgreiðslu komugjalda á bráða-, dag- og göngudeildir spítalans. Hlutfall staðgreiddra krafna er nokkuð misjafnt eftir deildum, en að meðal tali er það 80 prósent. Ef ekki er staðgreitt er krafa stofnuð í netbanka og greiðsluseðill sendur í pósti. Áminningarbréf er sent 10 dögum eftir eindaga, sem er 30 dagar, og ítrekunarbréf 45 dögum eftir eindaga. Ef ekki er greitt innan þess tíma er krafan send í lögfræðiinnheimtu.
Flestir ferðamenn staðgreiða kostnaðinn
Meirihluti þeirra erlendu ferðamanna sem ekki eru með gildar sjúkratryggingar og nýta sér heilbrigðisþjónustu á Íslandi staðgreiða þjónustuna miðað við verðskrá í reglugerð um heilbrigðisþjónustu við sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi.
Í verðskránni er til dæmis kveðið á um að koma á heilsugæslustöð á dagvinnutíma kosti 9.600 krónur, en utan dagvinnutíma kosti það 14.200 krónur. Koma á slysadeild og bráðamóttöku kostar 63.400 krónur, auk mögulegra viðbótargjalda, líkt og fyrir til dæmis túlkaþjónustu, læknisvottorð eða geisla- og myndgreiningar. Fyrir sjúkaflutninga skal sjúklingur greiða gjald til rekstraraðila sjúkraflutninga 42.600 krónur fyrir hverja byrjaða klukkustund, auk gjalds til eiganda sjúkrabifreiða, 2.700 krónur á hvern ekinn kílómetra til og með 65 kílómetrum, að lágmarki 15 kílómetra, sem gera því að lágmarki 40.500 krónur og þá samtals 83.100 krónur. Síðan 620 krónur á hvern ekinn kílómetra umfram 65 kílómetra.
Útgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna veittrar heilbrigðisþjónustu fyrir ósjúkratryggða fást að miklu leyti endurgreidd vegna EES-samningsins. Heildarkostnaður SÍ er því einungis vegna Norðurlandasamnings og Lúxemborgarsamnings, en í þeim báðum er kveðið á um gagnkvæmt afsal endurgreiðslna.