Íslenskar heilbrigðisstofnanir afskrifuðu í fyrra alls rúmlega 36 milljónir vegna ógreiddra reikninga erlendra ferðamanna eða þeirra sem þangað leita sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi . Sú fjárhæð hefur hækkað um tæpar 13 milljónir frá árinu 2016 þegar afskrifaðar voru rúmlega 23 milljónir. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Langhæstu kröfurnar eru afskrifaðar hjá Landspítalanum. Þar voru afskrifaðar árið 2017 rúmar 28 milljónir króna. Athygli vekur að í fyrra voru engar kröfur afskrifaðar hjá Sjúkratryggingum Íslands, árin þar áður hljópu afskriftir á tugum þúsunda en á árunum 2008 til 2014 afskrifaði SÍ tæplega fimm milljónir vegna ógreiddra reikninga. Bætt verklag hjá stofnuninni hefur gert það að verkum að tekist hefur að útrýma afskriftum hjá SÍ.
Heilbrigðisstofnanir sjá yfirleitt sjálfar um innheimtu sjúkrakostnaðar. Sem dæmi um ferli innheimtu er hjá Landspítalanum lögð mikil áhersla á staðgreiðslu komugjalda á bráða-, dag- og göngudeildir spítalans. Hlutfall staðgreiddra krafna er nokkuð misjafnt eftir deildum, en að meðal tali er það 80 prósent. Ef ekki er staðgreitt er krafa stofnuð í netbanka og greiðsluseðill sendur í pósti. Áminningarbréf er sent 10 dögum eftir eindaga, sem er 30 dagar, og ítrekunarbréf 45 dögum eftir eindaga. Ef ekki er greitt innan þess tíma er krafan send í lögfræðiinnheimtu.