Tillögur í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla eru nú til umfjöllunar í menntamálaráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að fyrsta mat á aðgerðum geti legið fyrir innan tveggja mánaða. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá ráðuneytinu við fyrirspurn fréttastofu RÚV, sem greinir frá þessu á vef sínum.
Skýrslan var afhent í lok janúar, en í starfshópnum áttu sæti Björgvin Guðmundsson, Elfa Ýr Gylfadóttir, Soffía Haraldsdóttir, Svanbjörg Thoroddsson og Hlynur Ingason.
Menntamálaráðuneytið vinnur meðal annars með fjölmiðlanefnd að því að meta tillögur nefndarinnar ásamt fleiri valkostum með tilliti til áhrifa þeirra og kostnaðar.
Meðal þess sem náðist eining um í nefndinni, væri að endurgreiða fjölmiðlum allt að fjórðung kostnaðar við framleiðslu fréttatengds efnis.
Nefndin klofnaði í afstöðu sinni um nokkur mál, til dæmis hvort Ríkisútvarpið ætti að hverfa af auglýsingamarkaði og hvort leyfa skyldi áfengis- og tóbaksauglýsingar. Þá var einnig rætt um að virðisaukaskattur yrði felldur niður, en slík tillaga var samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum.
Meðal þess sem nú er til athugunar í menntamálaráðuneytinu er að kortleggja kostnað ríkissjóðs vegna tillagna sem starfshópurinn fjallaði um í skýrslunni.