Átta þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp til laga um að 1. desember verði aftur gerður að almennum frídegi. Verði það að lögum myndi almennum frídögum, til viðbótar við helgidaga þjóðkirkjunnar, fjölga úr fjórum í fimm.
Fyrir eru sumardagurinn fyrsti, frídagur verslunarmanna (fyrsti mánudagur í ágúst ár hvert), baráttudagur verkalýðsins (1. maí) og þjóðhátíðardagur Íslendinga (17. júní) almennir frídagar.
Ísland fékk fullveldi 1. desember 1918 og dagurinn því nefndur fullveldisdagurinn. Hann var lengi vel þjóðhátíðardagur íslensku þjóðarinnar. Um tíma var gefið frí í skólum landsins á deginum en sá háttur var afnumin fyrir nokkru síðan.
Þegar hann ber næst uppi verði liðin 100 ár frá því að Ísland öðlaðist fullveldi með lögfestingu sambandslagasamningsins við Danmörku, og varð þar með frjálst og fullvalda ríki þótt að algjört sjálfstæði fengist ekki fyrr en 1944.
Í greinargerð frumvarpsins segir að fyrirhuguð séu margvísleg hátíðarhöld í ár, meðal annars á vegum Alþingis, til að minnast þessara mikilvægu tímamóta. „Á sama grundvelli er því lagt til með frumvarpi þessu að frá og með þessari hundruðustu ártíð fullveldisins verði 1. desember ár hvert lögbundinn frídagur.“
Til þess að breytingin verði þarf að breyta lögum um 40 stunda vinnuviku og fjölga almennum frídögum. Að mati flutningsmanna hefur enginn þeirra daga sem þegar eru slíkir haft í för með sér jafnmiklar grundvallarbreytingar á sögu og lífi íslensku þjóðarinnar og fullveldisdagurinn 1. desember 1918. Það sé dagurinn sem markaði fullnaðarsigur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Því telja flutningsmenn eðlilegt og rétt að fullveldisdagurinn 1. desember verði jafnframt gerður að frídegi á sama hátt og mikilvægi hans verði þannig minnst um alla framtíð.