Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að lýðheilsusjónarmið muni ráða för við ákvörðun um birtingar á áfengis- og tóbaksauglýsingum verði heimilaðar hérlendis. Nefnd um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla skilaði af sér tillögum fyrr á þessu ári. Í einni tillögu frá meirihluta nefndarinnar sagði að bann við áfengis- og tóbaksauglýsingum þjóni vart lengur tilgangi sínum þar sem slíkar auglýsingar berist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð- og myndmiðla, erlenda vef og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit.
Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar segir Lilja að þegar hafi verið sett af stað vinna í ráðuneytinu til að fara yfir allar tillögur nefndarinnar. Rétt sé að aðgengi í tengslum við samfélagsmiðla, tækni- og hina stafrænu byltingu, sé gjörbreytt. „Þetta er ein af tillögunum sem við erum að fara yfir, hvað þetta þýði fyrir fjölmiðla, hvernig önnur ríki hafa verið að nálgast áfengisauglýsingar og hvað þetta þýði með tilliti til aukinnar neyslu og aðgengis. Okkur hefur tekist mjög vel til hvað þetta varðar hingað til. Þess vegna þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar og það þurfa að vera mjög góð rök fyrir því að við gerum breytingar. Við erum að skoða þetta en það verður fyrst og síðast lýðheilsustefna sem ræður för um hvaða stefna verður tekin.“
Markmiðið að styðja við rekstrarlegt umhverfi fjölmiðla
Nefndin sem fjallaði um rekstrarumhverfið íslenskra fjölmiðla skilaði skýrslu sinni í febrúar. Hún gerði alls tillögur um aðgerðir í sjö liðum sem gætu bætt rekstrarskilyrði fjölmiðla. Þær snúa meðal annars að stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði, skattalegu umhverfi, textun og talsetningu og endurgreiðslu framleiðslukostnaðar á fréttum og fréttatengdu efni. Þá er einnig ítarleg samantekt um opinberan stuðning við fjölmiðla í helstu nágrannaríkjum auk sérálits tveggja nefndarmanna.
Lilja var gestur sjónvarpsþáttar Kjarnans í lok febrúar þar sem hún ræddi meðal annars skýrsluna, tillögur nefndarinnar og stöðu fjölmiðla.
Þar sagði ráðherrann að markmiðið væri að styðja við rekstrarlegt umhverfi fjölmiðla. „Samkeppnin, sem kemur líka erlendis frá, hún er alveg gríðarleg og ég hugsa að hún hafi aldrei verið meiri[...]Við sjáum verulega rekstrarerfiðleika í greininni og það er bara þannig að þetta þarf að vera gott umhverfi. Þið veitið okkur aðhald, ekki bara okkur heldur öllu samfélaginu, og það gerir okkur öll held ég aðeins öflugri fyrir vikið.“
Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér að neðan: