Beinn kostnaður vegna samkeppnisrekstrar Ríkisútvarpsins var 256,5 milljónir árið 2017. Hann jókst lítillega milli ára eða um 4,5 milljónir. Þetta kemur fram í ársreikningi RÚV sem birtist þann 26. mars síðastliðinn.
Í svari Ríkisútvarpsins við fyrirspurn Kjarnans segir að sú tala sé sá beini rekstarkostnaður sem hlýst af tekjuöflun RÚV. Megnið af tekjuöflun RÚV sé vegna sölu á auglýsingum en einnig vegna leigutekna, sölu á efni hérlendis og erlendis, leigu á dreifikerfi o.s.frv.
Enn fremur kemur fram í svarinu að þeir starfsmenn sem sinna þessum þáttum séu um 20 í fullu starfi og síðan bætist við hluti af störfum annarra starfsmanna sem koma að þessum málum á fjármála- og tæknisviðum.
Laun útvarpsstjóra hækkuðu um 16 prósent
Kjarninn fjallaði nýverið um launakostnað Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra en hann var með 22,9 milljónir króna í heildarlaun og þóknanir á síðasta ári. Greiðslur til hans hækkuðu um 5,7 milljónir króna í fyrra, eða um 33 prósent. Heildarlaun og þóknanir útvarpsstjóra voru 1,9 milljónir króna á mánuði að meðaltali árið 2017. Kom þetta fram í ársreikningi RÚV.
Kjarnanum barst árétting frá RÚV þar sem fram kemur að á árinu 2016 hafi útvarpsstjóri tekið fæðingarorlof sem lækkaði heildargreiðslur launa á því ár. Því gefi samanburður milli launa á árunum 2016 og 2017 ekki rétta mynd af launaþróun. Stjórn RÚV hafi ákveðið að hækka laun útvarpsstjóra á árinu 2017 úr 1.550 þúsund krónum á mánuði í 1.800 þúsund krónur, eða um 16 prósent.
Segir enn fremur í frétt Kjarnans að laun stjórnarmanna í RÚV hafi hækkað um 21 prósent á milli ára.