Eftir mikinn uppgangstíma í íslensku hagkerfi, allt frá árinu 2011, þá er gert ráð fyrir að það muni hægja nokkuð á hagvexti á næstu árum og að lending hagkerfisins verið „mjúk“ eins og segir í samantekt stjórnvalda, þar sem fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2023 er kynnt.
Áætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir að skuldir hins opinbera haldi áfram að lækka hratt, sem hlutfall af árlegri landsframleiðslu, og verði komnar undir 30 prósent lögbundið hámark, strax á næsta ári. Í lok áætlunartímans, árið 2023, eiga skuldirnar að vera í kringum 20 prósent af árlegri landsframleiðslu.
Á undanförnum árum hafa stoðir íslenska hagkerfisins styrkst hratt og mikið, samhliða endurskipulagningu á fjármálakerfinu og ævintýralegum uppgangi íslenskrar ferðaþjónustu. Á síðasta ári komu um 2,3 milljónir ferðamanna til landsins en árið 2010 voru þeir um 450 þúsund. Á árunum 2008 til 2016 hafa komið fleiri ferðamenn til landsins en komu í sextíu ár þar á undan.
Þessi uppgangur ferðaþjónustunnar hefur skilað sér í auknum útflutningstekjum þjóðarbússins, og hefur stuðlað að sterkari gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum.
Í fjármálaáætluninni, sem byggir á spá um efnahagsþróun á Íslandi, er ráð fyrir því gert að það muni hægja umtalsvert á hagvextinum, eins og áður segir, en að atvinnuleysi verði áfram lítið sem ekkert, en það mælist nú um 3 prósent.