„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ráðið allt of miklu á Íslandi. Hafi ráðið allt of miklu allt of lengi. Ég er ennþá þeirrar skoðunar,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstri grænna. Svandís situr í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem samanstendur af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Hún er gestur sjónvarpsþáttar Kjarnans sem frumsýndur er á Hringbraut í kvöld klukkan 21. Hægt er að horfa á stiklu úr þætti kvöldsins í spilaranum hér að ofan.
Í þætti kvöldsins ræðir Svandís vítt og breitt um heilbrigðismál, hvers sé að vænta í þeim málaflokki á komandi misserum og hverjar helstu áherslur hennar sem ráðherra verða.
Svandís ræðir líka hið pólitíska landslag og þá óvenjulegu stöðu sem er uppi að flokkurinn sem er lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum sitji í ríkisstjórn með flokknum sem staðsetji sig lengst til hægri.
Svandís segir ríkisstjórnarsamstarfið ganga merkilega vel en viðurkennir að þetta sé stórfurðuleg pólitísk staða. „Ég, og við vinstri menn, höfum fyrst fremst litið á okkur sem andstæðinga Sjálfstæðisflokksins. Það er af ástæðu. Það er vegna þess að við erum hvort á sínum endanum á hinu pólitíska litrófi.“
Hún telur að samfélagslegt og pólitískt landslag á Íslandi, sem við hafi verið að glíma eftir hrun, hafi kallað á nýjar lausnir. „Ég var mjög efins um þessa leið, að vinna með Sjálfstæðisflokknum og fara svona þvert yfir. En ég er algjörlega sannfærð um það núna að þetta var mjög góð hugmynd[...]Mér finnst við pínulítið skulda Íslendingum að reyna þetta. Auðvitað er það þannig að undir slíkum kringumstæðum erum við ekki að fara fram með ítrustu pólitísku sýn Vinstri grænna. Og heldur ekki ítrustu pólitísku sýn sjálfstæðismanna. En á sama tíma verð ég ekki sjálfstæðismaður. Og Bjarni [Benediktsson] verður mjög seint Vinstri grænn.“