Innviðafjárfestingar verða í forgrunni í ríkisfjármálunum, horft til næstu ára. Ný fjármálaáætlun, fyrir árin 2018 til 2023, hefur verið kynnt, og kemur fram í henni að fjárfestingar muni vaxa umtalsvert á næsta ári, eða um 13 milljarða króna og ná hámarki á árinu 2021. Alls er gert ráð fyrir að fjárfestingar á árunum 2019 til 2023 nemi 338 milljörðum króna.
„Umfangsmikil fjárfesting í samgöngu- og fjarskiptamálum verður meðal annars fjármögnuð með arðgreiðslum frá fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins. Alls er reiknað með að framlög nemi 124 ma.kr. á tímabilinu og að frá árinu 2019 bætist við sérstök árleg framlög til þriggja ára upp á 5,5 ma.kr. Gert ráð fyrir að ljósleiðaravæðingu landsins ljúki árið 2020,“ segir meðal annars í samantekt úr áætluninni, en formenn stjórnarflokkanna, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynntu áætluninni í dag.
Alls er gert ráð fyrir tæplega 75 ma.kr. í fjárfestingu í sjúkrahússþjónustu og fer mest til byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Framkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna hefjast á þessu ári en meginþungi framkvæmda verður á árunum 2020-2023.
Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir að ráðist verði í uppbyggingu á innviðum og önnur verkefni á fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og öðrum ferðamannastöðum.
Skattalækkanir
Ríkisstjórnin stefnir á að lækka skatta á næstu árum, og verður meðal annars bankaskattur lækkaður. Hann fer úr 0,376 prósent í 0,165 prósent, en forsvarsmenn allra fjármálafyrirtækja landsins hafa gagnrýnt skattinn lengi.
Áfram er stefnt að því að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og tryggja skilvirkt skatteftirlit. „Ríkisstjórnin mun eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um samspil tekjuskatts og bótakerfa á árinu, en í áætluninni er gengið út frá að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi og geti lækkað um 1 prósentustig í áföngum á áætlunartímanum,“ segir í samantektinni.
Um leið er stefnt að heildarendurskoðun tekjuskatts einstaklinga, samhliða endurskoðun bótakerfa. Þar er horft til stuðnings hins opinbera við barnafjölskyldur og vegna húsnæðiskostnaðar, með „markvissari fjárhagslegum stuðningi við efnaminni heimili.“
Tryggingargjald lækkar
Gert er ráð fyrir lækkun tryggingagjalds um 0,25% á árinu 2019, úr 6,85% í 6,6%. Frekari lækkun ræðst m.a. af niðurstöðu samráðs við aðila vinnumarkaðarins um útfærslu réttinda, sem fjármögnuð eru með tryggingagjaldi, og afkomu ríkissjóðs. Virðisaukaskattur á bækur verður afnuminn í byrjun árs 2019 og ári síðar verða höfundaréttargreiðslur, sem viðurkennd rétthafasamtök innheimta, skattlagðar sem eign en ekki tekjur.
Skattaívilnun vegna þróunarkostnaðar verður aukin á árinu 2019 og stefnt að afnámi þaksins síðar á tímabilinu. Skattstofn fjármagnstekjuskatts verður endurskoðaður með það að markmiði að skattleggja raunávöxtun, en áhrif þeirra breytinga koma fram árið 2020.
Í upphafi árs var kolefnisgjald á eldsneyti hækkað um 50% og er fyrirhugað að hækka gjaldið um 10% árið 2019 og aftur 2020. Skoðaðar verða leiðir til gjaldtöku af ferðamönnum. Miðað er við að gjaldið verði lagt á frá og með árinu 2020.
„Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af rekstri ríkis og sveitarfélaga öll ár áætlunarinnar í samræmi við þá fjármálastefnu sem lögð var fram samhliða fjárlögum ársins 2018 og Alþingi hefur nú samþykkt. Góður árangur hefur náðst við að lækka skuldir ríkissjóðs frá því þær náðu hámarki árið 2012. Stefnt er að því að heildarskuldir hins opinbera samkvæmt viðmiðum laga um opinber fjármál fari undir lögboðið 30% viðmið í árslok 2019, eða ári fyrr en fjármálastefnan gerir ráð fyrir og verði um 22% í árslok 2023,“ segir í samantektinni.