Læknavaktin mun flytja í Austurver á Háaleitisbraut í vor. Nákvæm dagsetning liggur ekki fyrir en ef allt gengur upp gæti það orðið í lok maí eða júní næstkomandi. Þetta kemur fram í svari Læknavaktarinnar við fyrirspurn Kjarnans.
Á vefsíðu Læknavaktarinnar kemur fram að fyrirtækið hafi verið að hanna nýtt húsnæði í Austurveri en rétt um það bil eitt ár er síðan undirbúningur hófst. Í svarinu segir að ástæðurnar fyrir flutningnum séu margar en stærð og nauðsynlegar endurbætur á núverandi húsnæði vegi þar þyngst.
Árið 1998 fékk Læknavaktin afhent nýtt húsnæði að Smáratorgi 1 í Kópavogi. Á vefsíðunni segir að það hafi verið bylting í vaktþjónustu heimilislækna enda húsnæðið hannað að þörfum slíkrar þjónustu.
„20 árum seinna hefur aðsókn á Læknavaktina farið úr rúmlega 30 þúsund komum í rúmlega 80 þúsund komur. Á þessum tíma hefur margt verið gert til þess að bæta aðstöðun en á síðusta ári varð ljóst að verulega þurft að bæta húsnæðiskost Læknavaktarinnar.
Nýja húsnæðið í Austurveri mun veita möguleika á mun rýmri og bjartari biðstofum og betri aðstöðu fyrir skjólstæðinga. Einnig munu læknastofum fjölga, símaver hjúkrunarfræðinga stækka og aðstaða fyrir starfsfólk bætt til muna,“ segir á vefsíðunni.