„Ég er áfram þeirrar skoðunar að þessi embættisfærsla hafi verið röng. Og raunar er þar sammála dómstólum um þá niðurstöðu.“ Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um ákvörðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að leggja fram tillögu um 15 dómara við nýjan Landsrétt fyrir tæpu ári síðan, sem vék frá tillögu dómnefndar um hverja ætti að skipa án þess að rökstuðningur ráðherrans væri nægjanlegur.
Svandís segist þó ekki hafa litið svo á að vantrauststillaga sem lögð var fram á Sigríði í mars, og hún kaus gegn, hafi snúist um þá embættisfærslur heldur hvort að Vinstri græn styddu áfram ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Þetta er meðal þess sem fram kom í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í gærkvöldi. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum í spilaranum hér að ofan.
Vantraustið snerist um ríkisstjórnarsamstarfið
Í júní 2017 skrifaði Svandís, ásamt, Katrínu Jakobsdóttur, nú forsætisráðherra, grein á vef Vinstri grænna sem fjallaði meðal annars um Landsréttarmálið. Þar stóð: „Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allrar. Enn er ekki séð fyrir endan á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil.“
Á sínum tíma hafi hún ekki tekið þátt í atkvæðagreiðslu um skipun Landsréttardóma vegna persónulegra tengsla hennar við einn þeirra sem dómnefnd hafði metið hæfasta til að sitja í réttinum en Sigríður hafði ákveðið að skipa ekki. Þau tengsl eru við Ástráð Haraldsson, nú héraðsdómara, sem er fyrrverandi eiginmaður og barnsfaðir Svandísar. Þegar Vinstri græn hafi ákveðið að fara í ríkisstjórnarsamstarf þá sagði Svandís að þau hafi áttað sig á því að flokkurinn væri að fara að gera það eins og gerist og gengur í íslenskum stjórnmálum. „Það eru flokkarnir sem sammælast um það að ganga til samstarfs og flokkarnir velja sér síðan sín ráðherraefni. Og við það situr. Hér erum við að tala um embættisfærslur frá fyrri tíð, sem eru frá því fyrir kosningar, og þær voru ekki til umfjöllunar í þessu vantrausti að mínu mati heldur í raun og veru hvort að við ætluðum að halda áfram að styðja þetta samstarf.“