Forystufólk stjórnarandstöðuflokkanna, Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Miðflokksins og Pírata, gagnrýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019 til 2023, sem kynnt var í gær.
Í henni eru línurnar lagðar í ríkisfjármálunum fyrir komandi ár, og greina má hinar pólitísku áherslur fyrir komandi ár í henni.
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir í viðtali við Fréttablaðið í dag, að hann telji forsendur fjármálaætlunarinnar vera óraunhæfar. „Áætlunin byggir á forsendum um hagvöxt sem eru í besta falli mjög bjartsýnar. Ef þær ganga eftir þá er um að ræða einstakan atburð í íslenskri hagsögu. Ríkisstjórnin er að tefla á tæpasta vað,“ segir Þorsteinn.
Samkvæmt fjármálaáætluninni verða innviðafjárfestingar í forgrunni í ríkisfjármálunum, horft til næstu ára. Í henni kemur fram í henni að fjárfestingar muni vaxa umtalsvert á næsta ári, eða um 13 milljarða króna og ná hámarki á árinu 2021. Alls er gert ráð fyrir að fjárfestingar á árunum 2019 til 2023 nemi 338 milljörðum króna.
Ríkisstjórnin stefnir á að lækka skatta á næstu árum, og verður meðal annars bankaskattur lækkaður. Hann fer úr 0,376 prósent í 0,165 prósent, en forsvarsmenn allra fjármálafyrirtækja landsins hafa gagnrýnt skattinn lengi.
Áfram er stefnt að því að draga úr álögum, gera skattheimtu sanngjarnari og tryggja skilvirkt skatteftirlit. „Ríkisstjórnin mun eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins um samspil tekjuskatts og bótakerfa á árinu, en í áætluninni er gengið út frá að tekjuskattur lækki í neðra skattþrepi og geti lækkað um 1 prósentustig í áföngum á áætlunartímanum,“ segir í samantekt úr áætluninni.
Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir að það sé millitekju- og láglaunafólk sem beri byrðarnar í þessari fjármálaáætlun. „Fjármálaáætlunin mun auka ójöfnuð, þar sem lág- og millitekjuhópar fá ekki sambærilegar kjarabætur og þeir tekjuhæstu og fjármagnseigendur í landinu. Því veldur fjármálaáætlun miklum vonbrigðum,“ segir í tilkynningu frá Samfylkingunni.