Alls var kröfum upp á 315 milljónir króna lýst í þrotabú Pressunnar. Skiptastjóri búsins hefur viðurkennt kröfur upp á 110 milljónir króna en hafnað öðrum. Þar munar mest um eina stóra kröfu sem skiptastjóri hefur hafnað. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Pressan var um tíma stórtækt á íslenskum fjölmiðlamarkaði, undir stjórn Björns Inga Hrafnssonar og viðskiptafélaga hans Arnars Ægissonar, og sankað að sér alls kyns fjölmiðlum með skuldsettum yfirtökum.
Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekktastir voru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Í apríl 2017 var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar. Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna. Með þeim var hópur annarra fjárfesta og svo virtist sem Pressusamstæðunni væri borgið.
Nýju fjárfestarnir komust þó fljótlega að því að mun meira vantaði til þess að rétta af reksturinn en þeir höfðu talið áður. Um miðjan maí voru þeir hættir við aukna fjárfestingu en áttu þó enn meirihluta hlutafjár í samstæðunni. Á sama tíma var kaupum Pressunnar á Birtingi rift og Dalurinn keypti í kjölfarið allt hlutafé þess fyrirtækis.
Kært til lögreglu vegna gruns um lögbrot
Dramatíkinni var þó hvergi nærri lokið. Í byrjun september var tilkynnt að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefði ásamt hópi fjárfesta keypt flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu. Um var að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn.
Reyndi að greiða skuldir með steikum
Björn Ingi og Arnar lögðu fram kæru gegn Árna Harðarsyni Halldóri Kristmannssyni og lögmanni þeirra, Bjarka Diego, til héraðssaksóknara fyrir fjársvik, skilasvik og skjalabrot í febrúar. Í henni er m.a. lýst „hvernig hinir kærðu hafi blekkt Björn Inga og Arnar til að undirrita samkomulag um riftun á kaupsamningi um alla hluti í Birtingi, undir því yfirskini að um málamyndagerning væri að ræða, en svo notað umrætt skjal til að yfirtaka kaupsamning um Birting og þann hlut, sem Pressan ehf. hafði þegar greitt fyrir, án endurgjalds með því að beita blekkingum og rangfærslu skjala, þrátt fyrir að gjaldþrot Pressunnar væri yfirvofandi og óumflýjanlegt.“
Árni sendi frá sér yfirlýsingu sama dag þar sem hann sagði Björn Inga ítrekað hafa haft í hótunum við sig persónulega og aðra eigendur Dalsins.
Markmið þeirra hótana hafi verið að komast hjá „skoðun opinberra aðila á bókhaldi og fjárreiðum Pressunar og tengdra miðla.“
Þá sagði Árni að Björn Ingi hafi reynt að greiða fá að greiða fyrir hlutafé í Pressunni með steikum frá veitingahúsinu Argentínu, að Björn Ingi hafi fengið persónulega greiddar 80 miljónir króna þegar hann seldi allar eignir DV og Pressunnar og að í smáskilaboðum sem hann hafi sent Árna á kjördegi í fyrra hafi Björn Ingi sagt: „Er núna að klastra saman ríkisstjórn og langar að koma á friði okkar í millum“. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Árni hefur sent frá sér vegna fréttar um kæru Björns Inga á hendur honum, Halldóri Kristmannssyni og lögmanni þeirra, Bjarka Diego, til héraðssaksóknara fyrir fjársvik, skilasvik og skjalabrot.