Rannsóknir haf sýnt, í næstum tvo áratugi, að margir vinsælir ferðamannastaðir í íslenskri náttúru hafa lengi verið undir of miklu álagi og liggja við skemmdum.
Í skýrslu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, er fjallað ítarlega um stöðu ferðaþjónustunnar í landinu, og þá ekki síst hvað rannsóknir sýni, þegar kemur að viðhorfi ferðamanna til Íslands sem áfangastaðar.
Íslensk náttúra er það sem dregur ferðamenn til Íslands, að miklu leyti, og segir í skýrslunni vísbendingar séu uppi um það, að náttúran sé víða fótum troðin. „Það er einkennandi fyrir niðurstöður hversu viðkvæm íslensk náttúra er og hversu illa hún virðist þola umferð ferðamanna. Sterkar vísbendingar eru um að náttúran sé veikasti hlekkurinn í keðjunni. Strax um aldamótin 2000 var þolmörkum hennar náð í Skaftafelli, á Lónsöræfum og í Landmannalaugum þegar umferð ferðamanna var tiltölulega lítil miðað við það sem nú er. Alls staðar þar sem þolmörk náttúrunnar voru rannsökuð var þolmörkum náð. Þónokkur friðlýst svæði og náttúruvætti eru á válista Umhverfisstofnunar yfir svæði í hættu vegna álags ferðamanna. Rannsóknir á þolmörkum náttúrunnar hafa m.a. sýnt fram á að gróðurlendi Íslands er misálagsþolið gagnvart umferð ferðamanna. Graslendi er harðgerðast en moslendi er við- kvæmasta gróðurlendið. Upplýsingar af þessu tagi ber að hafa í huga við skipulag og stjórnun ferðamannastaða,“ segir í skýrslu ráðherra.
Þá er fjallað um það sérstaklega, að rannsóknir sýni að mikið svigrúm sé til þess að bæta þjónustu, og birtist það meðal annars í viðhorfskönnunum ferðamanna.
Það var þingflokkur Vinstri grænna sem kallaði eftir skýrslu ráðherra um þolmörkin í ferðaþjónustunni. Eins og marg hefur verið fjallað um þá hefur vöxturinn í ferðaþjónustunni á Íslandi leitt til alls konar hliðaráhrifa í samfélaginu, sem kalla mætti vaxtarverki. Fjöldi ferðamanna á ári hefur farið úr 450 þúsund árið 2010 í 2,3 milljónir í fyrra, og er búist við því að þeim haldi áfram að fjölga, þó hlutfallslega muni hægja nokkuð á vextinum miðað við undanfarin ár.
Nýlega kynntu íslensk stjórnvöld áform um stórfellda uppbyggingu og fjárfestingar á ferðamannastöðum, vítt og breitt um landið. Samtals voru það fjárfestingar upp á 2,8 milljarða króna.
Í skýrslunni er vöxturinn á Íslandi settur í alþjóðlegt samhengi, og rætt um að hann væri búinn að vera langt yfir alþjóðlegu meðaltali undanfarin ár. Samt sem áður er talið að ferðaþjónusta muni vaxa hratt og mikið á næstu árum á alþjóðavísu, þar sem fólk sækir einfaldlega meira í að ferðast en áður. Vaxandi kaupmáttur hjá stórum hópum, ekki síst í Asíu, hefur ýtt undir enn meira mikilvægi ferðaþjónustunnar í heiminum. „Allt bendir til þess að ferðamönnum haldi áfram að fjölga á heimsvísu næstu ár. Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna spáir áframhaldandi vexti í alþjóðlegum ferðalögum árið 2018 miðað við 2017 eða um 4–5%.17 Langtímaspá stofnunarinnar gerir ráð fyrir því að árlegur vöxtur verði að meðaltali um 3,3% fram til ársins 2030 og að fjöldi manna sem ferðist yfir landamæri verði um 1,8 milljarðar það ár,“ segir í skýrslunni.