Heildarlaun Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, á síðasta ári voru 25,1 milljón króna. Árið 2016 voru þau 20,8 milljónir króna og því hækkuðu launin um rúmlega 20 prósent á milli ára. Meðal mánaðarlaun hans fóru því úr rúmlega 1,7 milljón króna á mánuði árið 2016 í tæplega 2,1 milljón króna í fyrra. Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn Kjarnans um sundurliðun á launum stjórnar og æðstu stjórnenda fyrirtækisins.
Kjarninn greindi frá því í gær að heildarlaun og þóknanir til stjórna þeirra félaga sem heyra undir Isavia, forstjóra samstæðunnar, framkvæmdastjóra dótturfélaga og framkvæmdaráðs félagsins voru 351 milljónir króna í fyrra. Árið 2016 voru laun og þóknanir sama hóps 306,2 milljónir króna. Þau hækkuðu því um tæplega 14,6 prósent á milli ára. Innifalið í þeirri hækkun eru launahækkun framkvæmdastjóra Fríhafnarinnar vegna ársins 2016, sem var gjaldfærð á árinu 2017.
Isavia er opinbert hlutafélag og að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Félagið annars rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi auk þess sem það stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu. Isavia á fjögur dótturfélög. Þau eru Fríhöfnin ehf., Tern Systems ehf., Domavia ehf. og Suluk APS. Samstæðan velti 38 milljörðum króna í fyrra og skilaði tæplega fjögurra milljarða króna hagnaði.
Allir ríkisforstjórarnir að hækka umtalsvert
Kjarninn hefur á undanförnum vikum greint frá þeim launahækkunum sem forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu fengu í fyrra eftir að ákvörðunarvald yfir kjörum þeirra var fært frá kjararáði og til stjórna fyrirtækjanna um mitt ár í fyrra. Tilgangur þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um kjararáð í lok árs 2016, og tóku gildi 1. júlí 2017, var að fækka verulega þeim sem kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör og færa ákvarðanir um slíkt annað. Á meðal þeirra sem fluttust þá undan kjararáði voru fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu.
Í síðustu viku greindi Kjarninn frá því að laun Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra hafi verið hækkuð um 16 prósent milli áranna 2016 og 2017. Eftir hækkunina voru mánaðarlaun hans 1,8 milljónir króna.
Áður hafði verið sagt frá því að Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hafi fengið 32 prósenta launahækkun á síðasta ári þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengissveiflum, en reikningar Landsvirkjunar eru gerðir upp í Bandaríkjadölum þótt laun séu greidd í krónum. Án slíkrar leiðréttingar nam hækkunin 45 prósent. Mánaðarlaun hans fóru úr tveimur milljónum króna á mánuði í 2,7 milljónir króna. Landsvirkjun segir að þetta vegna þess að laun forstjórans hafi verið lækkuð svo mikið árið 2012.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, hefur einnig notið góðs af þessum breytingum. Laun hans hækkuðu um 17,6 prósent á síðasta ári og mánaðarlaun hans eru nú 1,7 milljónir króna.
Annar forstjóri sem færðist undan kjararáði í fyrra er Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Laun hans hækkuðu um tvær milljónir króna í fyrra og námu heildarlaun hans á ársgrundvelli 21,7 milljónum króna, eða um 1,8 milljónum króna á mánuði. Það er hækkun um rúm tíu prósent milli ára.
Ráðuneytið bað um varkárni
Ljóst er að stjórnvöld óttuðust launaskrið hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja í opinberri eigu í kjölfar þess að ákvörðunarvald yfir launum þeirra var fært frá kjararáði. Í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins í janúar 2017 var þeim tilmælum beint til þeirra að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf eftir að ákvarðanir um laun þeirra færðust undan kjararáði um mitt ár í fyrra. Þar stendur að ástæða hafi verið til þess að „vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launaákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi. Æskilegt er að launaákvarðanir séu varkárar, að forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun.“
Afrit af bréfinu var sent til allra stjórnanna daginn áður en að ný lög um kjararáð, sem færðu launaákvörðunarvald frá ráðinu til stjórna opinberu fyrirtækjanna, tóku gildi í byrjun júlí 2017. Þá fundaði Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, með formönnum stjórna stærri félaga þann 10. ágúst 2017 og var þar farið yfir efni bréfsins.
Stjórnir flesta stærstu fyrirtækjanna í ríkiseigu hunsuðu tilmælin og hækkuðu laun forstjóra sinna langt umfram almenna launaþróun. Kjarninn hefur fengið umrætt bréf afhent frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.