Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að það efi gagnvart stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokknum sé í innyflunum á sér. Hún hafi því þurft að eiga í innri samningaviðræðum við sig þegar verið var að mynda sitjandi ríkisstjórn. „Ég taldi mjög mikilvægt að við myndum reyna að tefla þetta þannig að við næðum lykilstöðu í ríkisstjórn. Það er ótrúlegt afl í því að vera með Katrínu Jakobsdóttur við borðsendann og finna fyrir þeim krafti sem þar er. Vegna þess að áskorunin er svo mikil. Við erum með þessa klassísku tvo íslensku valdaflokka við borðið. En undir forystu konu og sósíalista. Það passar ekki inn í neina umræðum um pólitískar greiningar á Íslandi. Maður finnur fyrir því að allir sem eru að reyna að greina stöðuna þeir þurfa að leita út fyrir sínar hefðbundnu orðabækur í því hvernig maður talar um pólitík.“
Þetta er meðal þess sem fram kom í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut sem frumsýndur var síðastliðinn miðvikudag. Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Finnur ekki fyrir valdbeitingu
Þegar Vinstri græn ákváðu að fara í stjórnarsamstarfið þá fór það mjög öfugt ofan í suma flokksmenn. Þeirra á meðal var Drífa Snædal, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins og lykilmanneskja í uppbyggingu hans, sem sagði sig úr honum vegna þess. Drífa sagði við það tilefni að óumflýjanlegt væri að Vinstri græn myndu verða í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin myndu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. „Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi,“ sagði Drífa.
Svandís segist hins vegar ekki finna fyrir valdbeitingartilburðum af hendi samstarfsflokkanna. „Ég held að það sé afar mikilvægt í ríkisstjórnum alltaf að fólk tali mikið saman. Og ég held að það hafi kannski verið það sem kláraði síðustu ríkisstjórn að fólk gleymdi því að tala saman fyrr en allt var komið í steik. Og hafði þá ekki farið í gegnum hlutina með nægilega afgerandi hætti. Þessi ríkisstjórn byggir á ákveðnum sameiginlegum skilningi á því hvert verkefnið er og það er ákveðið traust sem er fólgið í því. Það er líka sameiginlegur skilningur á því að við erum ósammála um tiltekin grundvallaratriði. Það bara liggur og er bara þar. Um það verður ekki deilt.“