Eðlilegt er að gera kröfu um að íslenskir lífeyrissjóðir horfi til ábyrgra fjárfestingakosta í fjárfestingum sínum, og horfi meðal annars til umhverfis- og samfélagslegra sjónarmiða við fjárfestingar sínar.
Þetta er meðal þess sem fjallað er um í ítarlegri grein Kristjáns Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðings og ráðgjafa, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Í greininni er fjallað um krefjandi stöðu sem íslenskir lífeyrissjóðir standa frammi fyrir, þegar kemur að ávöxtun lífeyris landsmanna.
„En hvernig velja sjóðirnir fjárfestingarkosti fyrir þessa 1.000-1.500 milljarða á alþjóðlegum mörkuðum miðað við núverandi stærð og þau milljarðahundruð sem bætast við á næstunni? Það er ljóst að þeir verða að dreifa áhættunni verulega og velja fjölbreytilega kosti. Það er aldrei gott að hafa öll egg í sömu körfunni, jafnvel þótt karfan sé stór.
Það er fullkomlega eðlilegt að gera þá kröfu að við allar fjárfestingarákvarðanir skuli sjóðirnir miða við að hafa sem best áhrif á umhverfi, samfélag og stjórnarhætti og taka ESG-þætti inn í allar ákvarðanir. Það er hægt að gera án þess að afsláttur sé gefinn af ávöxtun, enda sýna samanburðarvísitölur að hægt er að fá betri ávöxtun víða með því að velja ESG-fjárfestingarleiðir umfram hefðbundna sjóði. Vanti sjóðina fyrirmyndir, má horfa til þess hvernig norrænu lífeyrissjóðirnir hafa staðið að málum,“ segir Kristján Guy í grein sinni, og rekur meðal annars hvernig norrænir lífeyrissjóðir hafa sett sér stefnu í þessum málum.
Eignir íslenskra lífeyrissjóða fóru fyrir fáeinum vikum yfir 4.000 milljarða króna og munu vaxa verulega á næstu árum og áratugum. Um 75 prósent af þessum eignum er bundið í íslenskum fjárfestingum með tilheyrandi áhrifum á íslenskan markað, en innan við 25 prósentum, 972 milljörðum króna var fjárfest erlendis skv. tölum Seðlabankans um eignastöðu lífeyrissjóðanna í lok janúar.