Spár um fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli á næstu árum kunna að fela í sér vanmat. Þannig gætu orðið til rúmlega 5 þúsund ný störf til 2021.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en mikill vöxtur í ferðaþjónustu hefur leitt til mikilllar fjölgunar starfa á Keflavíkurflugvelli og ýmissi hliðarþjónustu við flugvöllinn.
Samkvæmt áætlun sem unnin var fyrir Isavia munu verða til samtals 3.900 störf á árunum 2018-2021.
Horfur á að þessi spá sé vanmat, af því er fram kemur í Morgunblaðinu. Ef áform til dæmis WOW air um fjölgun starfa í 2.000 á næsta ári rætast kunni um 4.700 ný störf að skapast á vellinum þessi ár. Við þetta bætast hundruð starfa sem skapast vegna næstu áfanga í stækkun flugvallarins, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Mikill vöxtur í ferðaþjónustu hefur skapað mikinn þrýsting á uppbyggingu Keflavíkurflugvallar, en tugmilljarða uppbygging er nú þegar hafinn og útlit fyrir framhald á henni næstu árin.
Útlitið í ferðaþjónustu þykir nokkuð gott fyrir þetta ár, þrátt fyrir sterka krónu og minni árlegan vöxt en undanfarin ár. Á síðasta ári komu um 2,3 milljónir ferðamanna til landsins og er útlit fyrir að fjölgunin verði nokkur á þessu ári.