Formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, Guðmundur Karl Þorleifsson, mun skipa fyrsta sæti listans í borgarstjórnarkosningunum í maí. Í öðru sæti verður Hjördís Bech Ásgeirsdóttir, félagsliði og þriðja sætið skipar Jens G. Jensson skipstjóri.
Helstu áherslumál flokksins eru að draga til baka lóð undir mosku og allar leyfisveitingar vegna viðbyggingar á bænahúsi múslíma í Öskjuhlíð en þar hafi verið veitt leyfi fyrir kallturni.
Flokkurinn hafnar þéttingu byggðar og borgarlínu en vill nýta það fjármagn til uppbyggingar mislægra gatnamóta. Þá vill flokkurinn endurvekja verkamannabústaðakerfið. Auk þess vill flokkurinn að stofnanir borgarinnar verði fluttar úr miðbænum í úthverfi og láta hreinsa götur reglulega til að minnka svifryk.
Formaður flokksins sagði á blaðamannafundi í dag að á næstu dögum myndu fleiri framboð líta dagsins ljós sem hefðu í raun enga stefnu aðra en að apa eftir stefnu Íslensku þjóðfylkingarinnar.