„Yfirlýsing ljósmæðra og BHM er að mínu mati bæði óskiljanleg og tilhæfulaus og ég hafna þeirri túlkun á mínum orðum sem þar kemur fram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í yfirlýsingu.
Eins og kunnugt er þá er kjaradeila ljósmæðra og ríkisins enn óleyst.
Fyrr í dag sendu ljósmæður og BHM frá sér sameiginlega yfirlýsingu, þar sem Svandís var gagnrýnd fyrir orð sín á þingi í dag. Í yfirlýsingu ljósmæðra og BHM, sem Áslaug Íris Valsdóttir Petty, formaður LMFÍ, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, skrifa undir, segir að Svandís hafi látið frá sér orð á Alþingi, sem mætti skilja með þeim hætti, að ljósmæður geti sjálfum sér um kennt um að þær lækki í launum við að bæta við sig námi. „Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær lét heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, orð falla sem skilja má sem svo að hún telji að ljósmæður geti sjálfum sér um kennt að þær lækki í launum við að bæta við sig námi. Þessa stöðu megi rekja til þess að ljósmæður hafi valið að vera í sérstöku stéttarfélagi innan BHM. Ráðherrann gaf í skyn að hagsmunum ljósmæðra yrði betur borgið ef Ljósmæðrafélag Íslands, sem var stofnað árið 1919, yrði lagt niður og ljósmæður sæktu um aðild að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. LMFÍ og BHM lýsa undrun og vanþóknun á þessum ummælum heilbrigðisráðherra. Það blasir við öllum sem það vilja sjá að fullkomlega óeðlilegt er að ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig tveggja ára ströngu háskólanámi ofan á hjúkrunarfræðinám. Fráleitt er að rökstyðja eða réttlæta slíka launalækkun með vísan til þess að ljósmæður hafi valið að vera í sérstöku stéttarfélagi innan heildarsamtaka háskólamenntaðra á íslenskum vinnumarkaði. Staðan í kjaraviðræðum ljósmæðra við ríkið er alfarið á ábyrgð stjórnvalda sem hafa hafnað því að koma til móts við sjálfsagðar og eðlilegar kröfur ljósmæðra,“ segir í fyrrnefndri yfirlýsingu.
Svandís hafnar þessari túlkun alfarið. Hún var spurð að því í fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort hún telji starfs- og kjaraumhverfi ljósmæðra ásættanlegt og eðlilegt með tilliti til sex ára háskólamenntunar og mikillar sérhæfingar og hvort brugðist verði við af hálfu stjórnvalda, hvernig það verði gert og hvort eitthvert viðbúnaðarplan sé til staðar ef ekki semst.
Í svari sínu sagði ráðherra meðal annars að hún væri þeirrar skoðunar að meta eigi vinnuframlag ljósmæðra til launa og til samfélagslegrar virðingar: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vinnuframlag og starf ljósmæðra væri sérstaklega mikilvægt. Þarna er um að ræða kvennastétt sem sinnir konum á gríðarlega dýrmætum og mikilvægum tíma í lífi þeirra og mér finnst að það eigi að meta að verðleikum.“
Þá sagðist Svandís enn fremur hafa beitt sér í máli ljósmæðra í gegnum forstjóra Landspítalans, til að freista þess að gera það sem hægt sé til að bæta starfsumhverfi og mögulega vaktaumhverfi ljósmæðra. Það hefði verið gert og því spilað inn í kjaraviðræðurnar og vonandi gæti það orðið til að leysa þessa viðkvæmu deilu. „Ég ber hag heilbrigðisstétta fyrir brjósti, ljósmæðra sem annarra, enda veit ég að gott heilbrigðiskerfi verður ekki rekið nema þessar stéttir njóti sannmælis, virðingar og launa í samræmi við ábyrgð og mikilvægi starfa þeirra,“ segir Svandís í yfirlýsingu.