Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir það blasa við, að það sé fullkomlega óeðliegt að ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig tveggja ára háskólanámi, eftir að hafa lokið námi í hjúkrunarfræði.
Þetta kom fram í þingræðu hennar í dag, þar sem rætt var um stöðuna í kjaraviðræðum ljósmæðra og ríkisins. Eins og fram hefur komið, þá hefur lítið sem ekkert þokast í þeim deilum að undanförnu og hefur ríkið ekki verið tilbúið að fallast á kröfu ljósmæðra um launahækkun. „Það blasir við öllum sem það vilja sjá að fullkomlega óeðlilegt er að ljósmæður lækki í launum við það að bæta við sig tveggja ára ströngu háskólanámi ofan á hjúkrunarfræðinám. Próf í hjúkrunarfræði er meðal inntökuskilyrða í greinina, en ákveði hjúkrunarfræðingur að bæta við sig prófi í ljósmóðurfræði gæti viðkomandi þurft að taka á sig launalækkun í starfi ljósmóður,“ sagði Rósa meðal annars, og hvatti fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, til að semja við ljósmæður. „Hversu langt er seilst í því að spara ríkinu krónu með því að láta kvennastétt enn eitt skiptið taka á sig skellinn. Ljósmæður uppskera ekki laun í samræmi við erfiði sitt. Ljósmæður eru orðnar langeygar eftir viðurkenningu á sínum mikilvægu störfum, enda ekki að furða því að einungis eru tæp tvö ár síðan þær fóru í 10 vikna verkfall. Þær unnu þó vinnuna sína í því verkfalli en var neitað um greidd laun fyrir þá vinnu. Í staðinn fyrir að fara í verkfall núna hafa ljósmæður boðað uppsagnir og eru þær nú orðnar um 30,“ sagði Rósa.
Eins og greint var frá í dag, þá áttu Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, og síðan stéttarfélög ljósmæðra ásamt BHM, í skeytasendingum vegna umræðu um stöðu kjaraviðræðna. Svandís hafnaði því sem fram kom í fyrri yfirlýsingu frá ljósmæðrum, og sagði það „óskiljanleg og tilefnislaust“ að hún hafi verið að tala fyrir því að ljósmæður gætu sjálfum sér um kennt að hafa lækkað í launum með því að bæta við sig námi til ljósmóður. Hún sagði það af og frá, að hún hefði sagt eitthvað í þessa veru, og sagðist styðja ljósmæður.
Rósa sagði í meðal annars í ræðu sinni, að hún trúði því varla að enn einu sinni væri verið að horfa upp á kerfislægt kynjamisrétti. „Ég trúi því varla að við séum í enn eitt skiptið að horfa upp á aðför að kvennastétt í heilbrigðiskerfinu. Ég trúi því varla að við séum að sjá í enn eitt skiptið skýrasta form kerfislægs kynjamisréttis í samfélagi okkar, samfélagi sem ber sér stöðugt á brjóst fyrir að vera meistarasamfélag þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Það er brýnt að fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á kjaraviðræðum við ljósmæður fyrir hönd íslenska ríkisins, gangi til samninga við ljósmæður hið fyrsta og að heilbrigðisráðherra, sem hefur borið hag kvennastétta fyrir brjósti, stuðli að lausn mála þannig að ljósmæður gangi sáttar frá samningaborðinu. Þær eiga það sannarlega skilið frá okkur öllum.“