Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason koma ný inn í stjórn Landsvirkjunar, en Jónas Þór Guðmundsson, formaður stjórnar, og Álfheiður Ingadóttir, varaformaður hennar, sitja áfram í stjórninni.
Úr stjórninni fóru Haraldur Flosi Tryggvason, Kristín Vala Ragnarsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir en þau hafa setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2017.
Forstjóri Landsvirkjunar er sem fyrr, Hörður Arnarson.
Tekin var ákvörðun um að greiða 1,5 milljarða króna til eiganda Landsvirkjunar, ríkisins, vegna rekstrarins á árinu 2017, en staða fyrirtækisins er sterk um þessar mundir.
Eignir voru í lok árs um 4,5 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 450 milljörðum íslenskra króna. Vaxtaberandi skuldir námu 2,1 milljarði Bandaríkjadala, eða um 210 milljörðum króna.
Eigið féð var í lok árs tæplega 2,1 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 210 milljarðar króna. Búast má við því að Landsvirkjun muni greiða ríkinu mun meira í arð á næstu árum, þar sem fyrirtækið er að greiða niður skuldir og styrkja efnahag sinn ár frá ári.