„Ég get bara sagt það alveg eins og er þannig að það dyljist engum að þær kröfur sem settar hafa verið fram núna eru fyrir samninganefnd ríkisins algerlega óaðgengilegar.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar rætt um þá stöðu sem upp er í komin í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins.
Hann áréttaði að ekki færi vel á því, að reyna að setja málin í þann farveg, að ekki væri borin virðing fyrir störfum ljósmæðra. Hann hefði sjálfur farið fjórum sinnum á fæðingardeildina og vissi vel hversu mikilvæg störfin væru.
Formaður samninganefndar ríkisins er Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Bjarni sagði að góður gangur hefði verið í viðræðunum, en síðan hefðu kröfur ljósmæðra breyst og það hefði leitt til þeirrar stöðu sem nú væri komin upp.
Ekki hefur verið greint frá því, nákvæmlega, hverjar séu kröfur ljósmæðra að öðru leyti en því, að þær krefjast þess að menntun þeirra verði metin til launa. Það er sex til sjö ára nám að baki ljósmæðrastarfinu, þegar starfsnám er tekið með í reikninginn, en í mörgum tilvikum þá lækka ljósmæður í launum við það, að bæta við sig náminu ofan á hjúkrunarfræðinámið.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, sagði að harðlínustefnu ríkisstjórnarinnar í kjaramálum eiga eftir að bitna allverulega á ljósmæðrum. „Það gengur ekki að segja að ábyrgðin sé hjá stéttarfélögunum vegna þess að síðast þegar ljósmæður fóru í verkfall samþykkti fjármálaráðherra lög á verkfallið. Þær fengu ekki að semja.“