Hagnaður fjármálafyrirtækisins GAMMA Capital Management nam tæplega 626 milljónum króna í fyrra og dróst saman um rúmlega fjórðung frá árinu 2016.
Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag, en launakostnaður fyrirtækisins jókst um liðlega 300 milljónir milli ára. Eignir í stýringu hjá félaginu voru tæplega 140 milljarðar króna og sjóðir í rekstri voru samtals 46.
Stærstu eigendur GAMMA eru Gísli Hauksson, sem á 31 prósent, og Agnar Tómas Möller, framkvæmdastjóri sjóða GAMMA, en hann á rúmlega 29 prósent hlut. Gísli er hættur störfum hjá fyrirtækinu og sinnir nú eigin fjárfestingum. Stjórnarformaður félagsins er Hlíf Sturludóttir.
Heildareignir GAMMA í árslok 2017 voru 3,2 milljarðar og hækkuðu um rúmlega 740 milljónir á árinu.
Sú aukning skýrist að stærstum hluta af því að langtímakröfur á fagfjárfestasjóði jukust um 877 milljónir á milli ára og nam bókfært virði þeirra tæplega 1,3 milljarði, að því er fram kemur í Markaðnum.