Ráðuneytin hafa greitt Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins rúmlega 3,5 milljónir frá því heimasíðan opnirreikningar.is var opnuð í september á síðasta ári. Samkvæmt tölum sem Kjarninn hefur tekið saman hefur hefur stjórnarráðið alls greitt 3.509.626 krónur til ÁTVR frá því í ágúst í fyrra til síðustu mánaðarmóta.
Alls gera það 14.442 krónur á dag sem greiddar eru til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá stjórnarráðinu.
Útgjöldin eru ýmist flokkuð sem risna, gjafir til starfsmanna eða risna til starfsmanna eða starfsmannafélaga.
Langmest hefur verið greitt til ÁTVR frá utanríkisráðneytinu eða 1.316.870 krónur. Bæði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og menntamálaráðuneytið hafa kostað til rúmlega hálfri milljón í áfengi eða tóbak á þessu tímabili.
Í reikningnum má finna heildarfjárhæðir sem greiddir eru í hvert skipti til fyrirtækisins af hverju og einu ráðuneyti. Reikningarnir eru ekki sundurliðaðir. Þannig er í október 2017 greiddur reikningur upp á rúma milljón af utanríkisráðuneytinu.
Hins vegar má finna reikninga upp á umtalsvert lægri fjárhæðir, eins og frá innanríkisráðuneytinu (sem nú hefur verið skipt upp í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti annars vegar og dómsmálaráðuneyti hins vegar) reikning sem var greiddur upp á fjárhæð 4.799 krónur, sem samsvar nákvæmlega kostnaði við eina Ákavítisflösku samkvæmt upplýsingum á heimasíðu ÁTVR.
Vefurinn opnirreikningar.is var opnaður í september 2017 af Benedikt Jóhannessyni þáverandi fjármálaráðherra með það að markmiði að auka gagnsæi og aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins. Á vefnum er unnt að skoða upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins.