Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hyggst auglýsa stöðu forstjóra Sjúkratrygginga Íslands, samkvæmt heimildum Kjarnans, en skipunartími núverandi forstjóra, Steingríms Ara Arasonar, rennur út í lok október á þessu ári.
Steingrímur Ari hefur verið forstjóri stofnunarinnar frá stofnun, en skipunartíminn er til fimm ára í senn.
Sjúkratryggingar Íslands starfa samkvæmt lögum um sjúkratryggingar sem tóku gildi þann 1. október 2008. Stofnunin heyrir undir heilbrigðisráðherra og annast framkvæmd sjúkratrygginga. Jafnframt semur hún um og greiðir fyrir heilbrigðisþjónustu.
Jafnframt er markmiðið með stofnuninni að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum þjónustunnar eftir því sem frekast er unnt. Þá er það einnig markmið laganna að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina þjónustuna, að því er fram kemur á vef stofnunarinnar.
Á árinu 2016 nam rekstrarkostnaður Sjúkratrygginga Íslands tæpum 1,5 milljarði króna. Greiðslur stofnunarinnar til sjúkratryggðra á Íslandi og veitenda heilbrigðisþjónustu námu samtals um 75,2 milljörðum króna. Greiðslurnar vörðuðu um 265 þúsund einstaklinga og runnu til um 1.500 veitenda heilbrigðisþjónustu, að því er fram kemur í inngangsorðum Steingríms Ara, í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2016