„Stöðvið þetta fordómafulla frumvarp,“ segja bæði þingmenn Repúblikana og Demókrata í bréfi sem sent var til íslenska sendiráðsins í Washington, vegna umskurðarfrumvarpsins svokallaða.
Hið þverpólitíska bréf, sem vefsíðan The Times of Israel, greinir frá, er ritað af meðlimum utanríkismálanefndar til að þrýsta á um að umskurðafrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanni Framsóknar, verði dregið til baka.
Í frumvarpinu er umskurður barna bannaður, og þá sérstaklega umskurður ungra drengja, en umskurður stúlkna er nú þegar bannaður. Umskurður drengja yrði refsiverður samkvæmt frumvarpinu að viðlögðu sex ára fangelsi. Umskurður af læknisfræðilegum ástæðum yrði þó áfram leyfður.
Bandarísku þingmennirnir segja í bréfin að þó að fjöldi gyðinga og múslima á Íslandi sé takmarkaður gæti bannið verið nýtt af þeim sem daðri við útlendinga- og gyðingahatur í löndum þar sem fjölmenning er meiri.
„Þrátt fyrir að samfélag gyðinga á Íslandi sé mögulega það fámennasta í heimi getur löggjöf sem bannar umskurð karla virkað sem mikil árás á trúfrelsi bæði gyðinga og múslima,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum Orthodox Union sem birtu bréfið.
Umskurður er ekki algengur á Íslandi og hefur frá árinu 2001 alls 21 drengur undir átján ára aldri verið umskorinn hér á landi samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu. Þær tölur eru ekki flokkaðar eftir því hvort aðgerðin er framkvæmd af trúarlegum eða læknisfræðilegum ástæðum.
Á Íslandi búa á annað hundrað gyðinga og rúmlega 1.100 múslimar.
Silja Dögg tjáð sig um bréf þingmannanna í dag á Facebook síðu sinni. Þar segist hún ekki vita til þess að fordæmi séu fyrir því að þingmenn annarra ríkja sendi formlegt bréf til sendiráð Íslands til að tjá sig um þingmál sem séu til umræðu hverju sinni. „Við fyrstu sýn lítur þetta út sem argasti yfirgangur.“
Hún segir málið nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. „Allar hótanir og þrýstingur eru vinsamlegast afþakkaður.“
Um þetta langar mig til að segja: "Íslenskir þingmenn hafa fullt frelsi til að leggja fram mál sem þeim þykir...
Posted by Silja Dögg Gunnarsdóttir on Friday, April 13, 2018