Rafbílaeigendur munu geta hlaðið bíla sína þrátt fyrir að búa í fjölbýli, á nýjum byggingasvæðum sem og að geta hlaðið bifreiðina úr ljósastaurum.
Þetta er meðal nýrra tillagna varðandi orkuskipti í samgöngum sem samgöngustjóri Reykjavíkurborgar mun leiða í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur.
Verkefnin eru hluti af innleiðingu loftslagsáætlunar borgarinnar. Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið tillögur að tilrauna og þróunarverkefnum vegna rafvæðingar samgangna og kynnti þær á opnum fundi um samgöngur í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrir skömmu.
Í Loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í júní 2016 koma fram aðgerðir til að stuðla að aukinni hlutdeild rafbíla í samgöngum. Þar voru settar fram nokkrar ákveðnar tillögur.
- Standa fyrir uppsetningu hleðslustöðva í bílastæðahúsum borgarinnar.
- Setja upp hleðslustöðvar við valdar byggingar á vegum borgarinnar fyrir gesti og starfsfólk.
- Reykjavíkurborg vinni með OR að hugmyndum um uppsetningu hleðslustöðva í hverfum.
- Setja fram áætlun um hvernig strætó og væntanleg borgarlína geti alfarið gengið fyrir orkugjöfum sem ekki losa gróðurhúsalofttegundir.
- Regluverk Reykjavíkurborgar og fyrirtækja í eigu hennar verði rýnt með það að markmiði að ryðja úr vegi hindrunum fyrir rafvæðingu samgangna og auðvelda innleiðingu þeirra.
Orkuveitan hefur nú mótað fjórar tillögur að verkefnum sem kalla á nána samvinnu OR og Reykjavíkurborgar til að verkefnin komist til framkvæmdar.
Verkefnin eru hleðslustæði fyrir landlausa rafbílaeigendur, rafhleðslur á nýjum byggingasvæðum, álagsstýringar á rafbílahleðslum með áherslu á fjölbýlishúsnæði og hleðsla úr ljósastaurum.