Ákveðið hefur verið að hefja söluferli á öllu hlutafé í Jarðborunum hf., samkvæmt heimildum Kjarnans.
Jarðboranir eru í eigu SF III, sem er félag í rekstri Stefnis hf., einkafjárfesta og starfsmanna félagsins, en hjá því stafa um 150 manns. Samkvæmt tilkynningu frá árinu 2012, þegar SF III keypti hlut í Jarðborunum, þá voru eigendur þess félags Festa lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Samherji hf. og Stefnir - Íslenski athafnasjóðurinn I. Einhver hreyfing hefur þó verið á hlutafénu síðan.
Í lok árs 2016 námu heildareignir félagsins tæplega 6,5 milljörðum króna og eigið fé rúmlega þremur milljörðum, samkvæmt ársreikningi.
Sögu Jarðborana má rekja aftur til ársins 1945 þegar Jarðboranir ríkisins hófu starfsemi.
Það var síðan árið 1986 að Jarðboranir í núverandi mynd var stofnað. Meginmarkmiðið með stofnun Jarðborana árið 1986 var að viðhalda og auka þá þekkingu sem hafði þegar myndast á Íslandi við jarðhitaboranir.
Jarðboranir er leiðandi fyrirtæki á Íslandi á sínu sviði og starfar á mörkuðum víða um heim. Félagið á og rekur sex stóra bora auk safns minni bora. Fyrirtækið hefur öðlast mikla reynslu á undanförnum áratugum og er á árinu 2018 með verkefni í fimm löndum í fjórum heimsálfum.
Íslandsbanki hefur umsjón með söluferlinu, samkvæmt heimildum Kjarnans.