Donald Trump Bandaríkjaforseti er sagður hafa beðið Jim Mattis varnarmálaráðherra, og ráðgjafa sína á sviði alþjóða- og hermála, að ráðast af hörku á valin skotmörk í Sýrlandi, til að hefna fyrir efnavopnaárás í landinu á dögunum.
Hann hefur einnig talað fyrir því að ekki verði aðeins ráðist á skotmörk sem beinast að stjórnarher Sýrlands, heldur einnig helstu bandalagsþjóðunum, Rússlandi og Íran.
Frá þessu greinir Wall Street Journal í kvöld.
Rússar hafa þvertekið fyrir það að hafa staðið að baki efnavopnaárásinni í Sýrlandi, sem banaði í það minnsta 40 manns, en Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands fullyrðir að árásin hafi verið sviðsett af erlendum leyniþjónustum, og nefndi Breta sérstaklega í því sambandi, samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC.
Never said when an attack on Syria would take place. Could be very soon or not so soon at all! In any event, the United States, under my Administration, has done a great job of ridding the region of ISIS. Where is our “Thank you America?”
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 12, 2018
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að Mattis varnarmálaráðherra vilji ekki grípa til frekari hernaðar í Sýrlandi, nema að yfirlögðu ráði og að upplýsingar stöðu mála séu skýrar. Hann hefur einnig lagt áherslu á samvinnu við aðrar þjóðir, en Trump vill að Bandaríkin stýri ferðinni, en upplýsi aðrar þjóðir, eins og Breta og Frakka, um hvað þau ætli sér að gera.
Ástandið í Sýrlandi er skelfilegt, en talið er að yfir 10 milljónir manna, af um 20 milljóna heildaríbúafjölda, séu á flótta vegna borgarstyrjaldarinnar í landinu.