Ýmislegt bendir til þess að þensluskeiði íslensks efnahagslífs undanfarin ár sé nú lokið. Hlutfall starfandi hefur lækkað stöðugt frá því í apríl á síðasta ári og atvinnuleysi hefur aukist lítillega. Hægt hefur á hagvexti sem var 1,5 prósent á fjórða ársfjórðungi 2017 sem er umtalsvert minna en ársfjórðungana á undan. Og þá má einnig bæta við að dregið hefur úr hækkunum húsnæðisverð, sem þó eru ennþá umtalsverðar.
Þetta kemur fram í nýjasta efnhagsyfirliti VR sem birtist í dag.
Samkvæmt VR er íslenska hagkerfið þó ekki eins brothætt nú og það var skömmu fyrir hrunið 2008. Ástæðan sem gefin er er sú að skuldir eru mun lægri nú því árin fyrir hrun einkenndust af mikilli aukningu í skuldsetningu, bæði fyrirtækja og heimila. Næsta niðursveifla verði því eflaust innflutt en ekki heimatilbúin, eins og fyrir tæpum áratug. Það verði því að teljast ólíklegt að árið 2019 verði endurtekning á árinu 2009.
Hagkerfið ekki eins brothætt og fyrir hrun
Í yfirlitinu segir að ýmsir hagvísar bendi nú til þess að þeim mikla uppgangi sem verið hefur í íslensku efnahagslífi sé lokið. Hlutfall starfandi hefur lækkað allt frá apríl 2017 og atvinnuleysi hefur aukist örlítið á sama tímabili. Þá hefur hægt á hækkunum húsnæðisverðs, sem þó eru enn miklar.
„Í seinustu uppsveiflu, 2003 til 2007, hækkaði fasteignaverð langt umfram útborguð laun og var bólan á fasteignamarkaði vel sýnileg strax árið 2005. Sú bóla var þó byggð á mikilli aukningu í skuldum heimilanna. Núverandi hækkun fasteignaverðs er vegna lítils framboðs fasteigna en ekki eins mikið vegna aukningar í skuldum. Einnig hefur hægt nokkuð á hagvexti,“ segir í yfirlitinu.
Fyrir árið 2017 í heild var hagvöxtur á mann aðeins 1,1 prósent. Það er nokkuð undir 1,7 prósent meðalhagvexti á mann frá 1990. Gengi krónunnar er einnig nokkuð sterkt sögulega séð, segir í yfirlitinu. „Sterkt gengi er tvíeggja sverð. Annars vegar er sterkt gengi jákvætt fyrir verðlagsþróun og heldur verðbólgunni í skefjum. Hins vegar hefur sterkt gengi neikvæð áhrif á útflutningsgreinarnar svo sem ferðamannaiðnaðinn og sjávarútveginn.“
Annað hrun mun eiga sér stað á Íslandi
Hagkerfið er þó ekki eins brothætt og það var fyrir hrun þar sem skuldir heimila og fyrirtækja eru mun lægri en á þeim tíma, samkvæmt VR. Seinast þegar þessi þróun sem talin er upp að ofan átti sér stað var eitt stærsta efnahagshrun Íslandssögunnar rétt handan við hornið.
Höfundar yfirlitsins velta þess vegna fyrir sér hvort annað hrun sé í vændum á Íslandi. „Eitt er víst og það er að annað hrun/niðursveifla mun eiga sér stað á Íslandi. Stóra spurningin er hins vegar hvenær það muni gerast. Þó margir hagvísar bendi til þess að farið sé að hægja á í íslensku efnahagslífi líkt og 2008 er ólíklegt að 2019 muni líta út líkt og 2009. Helsta ástæðan er töluvert hagstæðari skuldastaða heimila og fyrirtækja.
Árin fyrir hrunið árið 2008 einkenndust af mikilli aukningu í skuldsetningu fyrirtækja og heimila. Aukningin leiddi til hækkunar á eignaverði og aukins hagvaxtar. Næsta kreppa á Íslandi verður eflaust innflutt, þ.e. kreppa erlendis sem smitast muni til Ísland, frekar en að vera heimatilbúin líkt og seinast,“ segir í yfirlitinu.