„Hernaðaraðgerðir koma ekki á friði,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, við Fréttablaðið í dag. Hún segir að afstaða VG í utanríkismálum verði að koma betur fram í ríkisstjórnarsamstarfi VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Utanríkismálanefnd Alþingis fundaði í gær vegna stöðunnar í Sýrlandi, þar sem meðal annars var rætt um hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna, Breta og Frakka, með stuðningi NATO, sem miðuðu að því að koma í veg fyrir frekar efnavopnaárásir Sýrlandshers og eyðileggja vopnabúr hersins.
Rósa segir ekkert hafi komið fram sem hafi breytt hennar afstöðu til þessara aðgerða, en hún segist alfarið á móti þeim. „Stefna VG verður að koma fram með skýrari hætti í utanríkisstefnu Íslands, það er mín skoðun og ég mun ekki hvika frá henni,“ segir Rósa við Fréttablaðið.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði um helgina, að Vinstri græn hefðu alltaf talað fyrir friðsamlegum lausnum og geri enn, enda sé það niðurneglt í stefnu flokksins. Þegar Katrín var enn spurð hvort hún styðji árásirnar, svaraði hún: „Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin, en við höfum sagt að þær hafi verið viðbúnar.“
Eins og fram hefur komið, þá studdu öll NATO ríkin hernaðaraðgerðirnar, þar á meðal Ísland, og var frá því greint í tilkynningu frá NATO.