„Það kom ekkert út úr fundinum og enn ber mikið á milli,“ sagði Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið, að loknum fundi með samninganefnd ríkisins í húsnæði Ríkissáttasemjara í gær.
Eins og kunnugt er þá hafa kjaradeilur ljósmæðra og ríkisins staðið yfir lengi án þess að lausn sé í sjónmáli. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur sagt að kröfur ljósmæðra séu óaðgengilegar og geti ógnað viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði í komandi kjarasamningum í haust.
„Við erum ósammála og ekkert að nálgast. Ég held að það sé töluvert langt í land ennþá. Það er fundur eftir 10 daga og ég veit ekki hvort nokkuð gerist. Ég á ekkert frekar von á því,“ segir Áslaug í viðtali við Morgunblaðið í dag og bætir við að ljósmæður hugsi nú sinn gang og kanni hvað sé í stöðunni.
Áslaug segir ljósmæður ekki sérlega bjartsýnar en þær standi saman og muni gera það áfram. Það semjist á endanum. „Við ræddum saman og niðurstaðan var sú að það sé ennþá svo langt á milli að við sjáum ekki til lands,“ sagði Gunnar Björnsson, formaður samninganefndar ríkisins, í viðtali við Morgunblaðið. Hann segist þó vongóður um að samningar náist, og vonar að það gerist áður en langt um líður.