Raunhækkun á íbúðum, þ.e. hækkun á virði að teknu tilliti til verðlags, nemur nú um 4,8 prósentum á ársgrundvelli, samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár Íslands. Lækkun á verði íbúða mældist í mars 0,1 prósent.
Verð á sérbýli lækkaði um 1,1 prósent milli mánaða, en fjölbýli hækkaði um 0,2 prósent. Sé horft til síðustu þriggja mánaða hefur verðið, að nafnvirði, hækkað um 1,4 prósent en undanfarið hálft ár nemur hækkunin 1,1 prósent.
Segja má að fjögurra ára tímabili mikillla verðhækkana sé lokið í bili, sé miðað þessar nýjustu tölur. Ekki er langt síðan að spár birtust sem gerðu ráð fyrir meiri hækkunum á fasteignaverði. Meðal annars gerir spá Íslandsbanka ráð fyrir að fasteignaverða hækki um rúmlega 12 prósent á þessu ári. Eins og mál standa nú, er ólíklegt að sú spá gangi eftir.
Aðrar spár hafa gert ráð fyrir minni hækkun, eða um sjö prósent, en eins og áður segir þá hefur raunverðið undanfarið ár hækkað um 4,8 prósent.
Þrátt fyrir að það sé farið að hægja á verðhækkunum, þá benda flestar greiningar til þess að langt sé í að það náist jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á næstu árum.
Mikil vöntun er á íbúðum á markað, einkum litlum og meðalstórum á höfuðborgarsvæðinu, en víða í minni sveitarfélögum á landsbyggðinni vantar einnig eignir.
Á næstu þremur árum er gert ráð fyrir að það þurfi að minnsta kosti að koma um 10 þúsund nýjum íbúðum út á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu, til að mæta eftirspurninni, ekki síst vegna mikillar fólksfjölgunar.
Hins vegar hefur verðið hækkað verulega hratt og á árunum 2015 til 2017 voru engin dæmi í þróuðum ríkjum í heiminum um jafn mikla hækkun á fasteignaverði, en frá því í maí 2016 til maí 2017 þá hækkaði verðið um 24 prósent í krónum talið. Sé miðað við verðþróun í Bandaríkjadal, þá hækkaði verðið um meira en 50 prósent, þar sem krónan styrktist hratt á þessu tímabili gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Verulega hefur dregið úr þessu verðhækkanaferli, eins og áður segir. Fyrir næsta ár gera spár greinenda á fjármálamarkaði ráð fyrir 4 til 5 prósent hækkun fasteignaverðs, og að verðbólga taki að hækka nokkuð en hún hefur haldist niðri á undanförnum fjórum árum og undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiðinu. Hún mælist nú 2,8 prósent og fór í fyrsta skipti í fjögur ár yfir verðbólgumarkmiðið í síðasta mánuði.