Á aðalfundi Verslunarmannafélags Suðurnesja (VS), sem framundan er síðar í mánuðinum, mun verða borin upp tillaga um að hefja formlegar viðræður við Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR) um sameiningu.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mun mæta á fundinn, og tala fyrir kostum þess að félögin verði sameinuð.
Í samtali við Kjarnann nú í kvöld, sagðist hann hrifinn af hugmyndinni og að reynslan frá fyrri sameiningum minni félaga við VR sýndi að þær væru til bóta. „Slagkrafturinn í kjarabaráttunni og allri starfsemi stéttarfélaganna getur aukist mikið við þetta,“ sagði Ragnar Þór.
Í VS eru um 1.500 virkir félagsmenn, en þar á meðal eru fjölmennir hópar félagsmanna sem starfa á Keflavíkurflugvelli.
Heildarfjöldi félagsmanna VR er um 30 þúsund, og því myndi félagsmönnum fjölga umtalsvert við þessa sameiningu. Auk þess kynni það að styrkja VR í harðri kjarabaráttu, sem fyrirsjáanleg er í haust, að vera með fjölda félagsmanna á Keflavíkurflugvelli, sem í dag má segja að sé lykilvettvangurinn í íslensku efnahagslífi, með hinum mikla vexti ferðaþjónustu.
Spár gera ráð fyrir að gjaldeyristekjur vegna ferðamanna verði 570 milljarðar á þessu ári, en um 99 prósent ferðamanna sem koma til landsins koma í gegnum Keflavíkurflugvöll.
Tvö stærstu stéttarfélög landsins eru VR og síðan Efling, þar sem Sólveig Anna Jónsdóttir var nýlega kjörin formaður. Félagsmenn í þessum tveimur félögum eru um 60 þúsund, og eru kjaraviðræður framundan í haust og á næsta ári.
Búast má við hörðum átökum í kjarabaráttu, og segir Ragnar Þór að samheldnin sé að aukast í verkalýðshreyfingunni og að það sé hans mat að nú sé að myndast sögulegt tækifæri til að ná fram nauðsynlegum kjarabótum fyrir fólkið á gólfinu og kerfisbreytingum einnig.