Þingfundur var haldinn stuttlega í dag, þrátt fyrir að vera ekki á dagskrá, til að greiða atkvæði um skýrslubeiðni Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, frá utanríkisráðherra um framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga er varða flutning á vopnum. Ásamt Rósu standa að skýrslubeiðninni nokkrir þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokksins og Flokki fólksins ásamt Pírötum.
Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna klofnuðu í afstöðu sinni til málsins, en Sjálfstæðisflokkurinn studdi ekki skýrslubeiðnina, að minnsta kosti ekki að henni yrði beint til utanríkisráðherra og vildu heldur meina að samgönguráðherra ætti að skila umræddri skýrslu. Þeir Óli Björn Kárason, Páll Magnússon og Vilhjálmur Árnason greiddu atkvæði gegn skýrslubeiðninni, en aðrir þingmenn flokksins ýmist sátu hjá eða voru fjarverandi.
Nokkur umræða varð í þinginu á mánudag vegna málsins. Stjórnarandstaðan kvartaði yfir því að utanríkisráðherra vildi ekki taka við skýrslubeiðninni, en forseta þingsins hafði borist bréf frá ráðherra þar sem hann hélt því fram að hún beindist að hluta til að þáttum sem væri á verksviði annars ráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon kannaði síðan málið sem var tekið til atkvæða í dag og taldi málið tækt til þinglegrar meðferðar og atkvæðagreiðslu.
„Engu að síður er það svo að í fyrirliggjandi skýrslubeiðni er óskað eftir því að fjallað verði um atriði sem falla undir málefnasvið utanríkisráðherra samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 84/2017. Þar er í 8. grein kveðið á um að utanríkisráðherra fari með utanríkismál, þar á meðal samninga við önnur ríki og gerð þeirra. Ábyrgð á framkvæmd alþjóðasamninga getur þó eftir atvikum verið á hendi, eða að hluta til á hendi, annarra ráðherra eins og kunnugt er. Beiðnin varðar opinbert málefni og uppfyllir að öllu leyti ákvæði þingskapa. Hún telst því tæk til þinglegrar meðferðar og atkvæðagreiðslu. Þá hefur þessi skoðun einnig leitt til þess að skýrslubeiðendur hafa gert nokkrar breytingar á beiðni sinni til að taka betur mið af þeirri verkaskiptingu sem á bak við liggur. Hefur málið verið prentað upp og kemur nú þannig til atkvæðagreiðslu,“ sagði Steingrímur í dag.
Í máli Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þegar hann gerði grein fyrir hjásetu sinni, kom fram að hann teldi að málið eigi fremur heima á borði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra en utanríkisráðherra. „Það hefur aldrei verið ágreiningur um að eðlilegt væri að kallað væri eftir upplýsingum af þessu tagi en það hefur hins vegar verið álitamál með hvaða hætti það væri borið fram hér. Ég tel að það sé að minnsta kosti gott ef lyktir fást í þetta mál, en sit hjá við atkvæðagreiðsluna í ljósi þeirrar afstöðu minnar að meginefni og kjarni fyrirspurnarinnar eða skýrslubeiðninnar lúti að málefnum sem heyra undir verksvið samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og því hefði ég talið eðlilegt að málið færi í þann farveg.“
Skýrslubeiðnin er svohljóðandi:
Með vísan til 54. greinar þingskaparlaga er óskað eftir skriflegri skýrslu utanríkisráðherra, í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftir því sem við á, um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands er varða leyfisveitingar eða undanþágur vegna vopnaflutninga.
Í skýrslunni verði dregin fram ábyrgð ráðuneytisins, og annarra ráðuneyta og stofnana ef við á, um veitingar á leyfum og undanþágum til vopnaflutninga um íslenska lofthelgi eða til íslenskra aðila sem starfa á alþjóðavettvangi. Í því felist að skýrt verði hvernig íslensk stjórnvöld framfylgja því þegar Ísland undirgengst alþjóðlegar skuldbindingar varðandi vopnaviðskipti eða vopnaflutninga, svo sem viðskiptabann alþjóðastofnana, alþjóðlega samninga og sáttmála, ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og ályktanir Evrópuráðsins.
Óskað er eftir því að í skýrslunni verði verkferlar skýrðir sem og ábyrgðarkeðjan innan stjórnsýslunnar, og einnig hið pólitíska verklag þegar íslenska ríkið undirgengst alþjóðlegar skuldbindingar af þessu tagi.