Guðmundur Kristjánsson, forstjóri útgerðarfélagsins Brims, hefur keypt 34,1% eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB Granda.
Heildarupphæð viðskiptanna nemur tæplega 21,7 milljörðum króna, en markaðsvirði HB Granda við lokun markaða í gær nam 54,7 milljörðum króna.
Kristján og Halldór eru báðir stjórnarmenn í HB Granda. Þeir áttu eignarhlutinn í gegnum félögin Vogun hf. og Fiskiveiðahlutafélagið Venus hf. Þeir hafa verið stærstu einstöku eigendur félagsins, en Lífeyrissjóður verslunarmanna er næst stærsti hluthafinn með 13,6 prósent hlut.
Vogun hf. átti tæpa 611 milljón hluti í HB Granda og Fiskiveiðihlutafélagið Venus hf. átti tæplega 9,1 milljón hluti.
Kaupverðið var 35 krónur á hlut.
Eftir viðskiptin á Kristján Loftsson, sem er einnig stjórnarformaður Hvals hf., 249 þúsund hluti í HB Granda en Halldór engan.
Afhending hlutanna skal fara fram innan 30 daga við greiðslu kaupverðs, en tilkynning um viðskiptin hefur verið send til kauphallarinnar.
Þetta er með umfangsmestu viðskiptum með hlutafé á skráðum markaði hér á landi, á undanförnum áratug, en HB Grandi er eina sjávarútvegsfyrirtækið sem skráð er á markað.
Eigin fé HB Granda nam í lok árs í fyrra 257 milljónum evra, eða sem nemur um 35 milljörðum króna.