Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar, segir að það sé enn mögulegt að bakkað verði út úr áformum um lagningu Borgarlínu ef öfl sem leggjast gegn henni komist í meirihluta í borginni í lok næsta mánaðar. Enn sé ekki búið að útkljá hvernig kostnaðarskipting milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins verði vegna verkefnisins og að Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, hafi talað þannig að honum finnist eðlilegt að bíða þar til eftir komandi sveitarstjórnarkosningar og að málið verði klárað að þeim loknum.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í viðtali við Dag í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut. Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér að neðan:
Dagur segir að komist flokkar til valda sem séu með aðrar áherslur í samgöngu- og skipulagsmálum en þeir sem hafa ráðið ferðinni á undanförnum árum, þá sé enn hægt að bakka út úr Borgarlínuverkefninu. „Þessi staða kristallar hvers vegna Borgarlínumálið og þessar stóru línur í samgöngu- og skipulagsmálum eru eitt af stóru málum þessara kosninga. Það skiptir mjög miklu máli hvernig næsti meirihluti mun líta út og hvaða sjónarmið verða þar efst á baugi varðandi það hvernig þessum málum verður forgangsraðað.“Ef þeir flokkar sem leggjast geng Borgarlínu, og vilja þenja byggð út í borginni, komist til valda í vor þá myndi sá meirihluti væntanlega ekki klára þá samninga sem þurfi að gera við ríkið á þessu ári um fjármögnun og áfangaskiptingu verkefnisins. „Ég er ekki að segja að þetta myndi fresta Borgarlínu um aldur og ævi, líklega myndu líða fimm eða tíu ár þar sem fólk myndi eyða meiri og meiri tíma í traffík þar til algjörlega allir myndu átta sig á því að til þess að þróa þetta höfuðborgarsvæði á farsælan hátt þá þarf öflugri almenningssamgöngur og Borgarlínu.“
Dagur segir að búið sé að skila sameiginlegri vinnu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um hvernig skipuleggja eigi samgöngumál þar til framtíð. Fram undan séu því samningaviðræður um hvernig ríki komi að kostnaði vegna slíkra verkefna, en þar eru t.d. Borgarlína og áform um að setja Miklubraut í stokk undir. „Í mínum huga er þetta verkefni það brýnt að það hlýtur að vera skoðað hvort það sé hægt að flýta þessu ferli jafnvel þótt að ríkið þurfi að greiða sinn hlut í jöfnum áföngum, þá gæti maður séð fyrir sér að stór verkefni eins og Miklabraut í stokk og einhverjir áfangar Borgarlínunnar yrðu fjármagnaðir af sveitarfélögunum þó að greiðslur ríkisins kæmu til á lengri tíma.“