Of hár launakostnaður íslenskra fyrirtækja, í hlutfalli við tekjur, mun á endanum bitna harkalega á samkeppnishæfni landsins og sífellt fleiri dæmi eru um að fyrirtæki verði undir í samkeppni um verkefni á erlendum vettvangi vegna óhagstærða ytri rekstrarskilyrða.
Þetta segir Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, í grein sem birt er í ViðskiptaMogganum sem kom út í gær.
Þróun á rekstrarskilyrðum fyrirtækja sem hafa tekjur erlendis frá hafa ekki verið hagfelld að undanförnu, enda hefur krónan styrkst umtalsvert á undanförnum árum og á sama tíma hefur launaskrið verið mikið.
Þann 1. maí næstkomandi hækka laun almennt um 3% samkvæmt kjarasamningum SA og aðildarsamtaka ASÍ. Lágmarkslaun hækka meira eða sem nemur 7% og verður lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf 300 þúsund krónur.
Í grein sinni bendir Ásta meðal annars á það, að íslenskar verkfræðistofur finni fyrir því að norskar stofur bjóði lægra en þær í verkefni, meðal annars vegna þess að þau nýti sér ódýra starfskrafta í Austur-Evrópu og víðar. Við þetta sé erfitt að keppa, eins og mál standi nú.
Hún segir að veruleg hætta sé nú á því, að verðmæt störf muni streyma úr landi og að fyrirtæki lendi í miklum erfiðleikum.