„Fyrr í þessum mánuði var ákveðið í norska fjármálaráðuneytinu eftir miklar umræður, að norska olísjóðnum yrði ekki heimilt að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðum (private equity) en opnað á að sjóðurinn gæti fjárfest í fjárfestingaverkefnum um endurnýjanlega orkugjafa að fengnum nánari skilyrðum. Rökin gegn því að heimila framtaksfjárfestingar voru að þær myndu ekki fullnægja skilyrðum um gagnsæi í fjárfestingum, enda væri það megingildi að sögn Siv Jensen fjármálaráðherra. Á móti var bent á að slík ákvörðun myndi kosta sjóðinn háar fjárhæðir í væntri ávöxtun, að mati Per Stromberg sem er annar höfunda skýrslu um kosti og galla þess að fjárfesta í framtaksfjárfestingasjóðum sem var gefin út í upphafi þessa árs. Sjóðnum verður þó áfram heimilt að fjárfesta í óskráðum bréfum fyrirtækja sem hafa lýst yfir ætlan sinni að verða skráð á markað.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri grein um fjárfestingaumhverfi lífeyrissjóða og fjárfestingasjóða, sem birtist í Vísbendingu í dag. Þar fjallar Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðingur og ráðgjafi, um samfélagslegar hliðar fjárfestinga lífeyrissjóða og fjárfestingasjóða. Þetta er önnur greinin sem birtist í þessum greinaflokki.
Norski olíusjóðurinn er stærsti fjárfestingarsjóður sinnar tegundar í heiminum, og starfar eftir ströngu regluverki sem mótað er meðal annars eftir pólitískri stefnu.
Heildareignir norska olíusjóðsins nema nú meira en eitt þúsund milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 100 þúsund milljörðum króna.