Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að nær allan tímann sem flokkurinn hefur verið á þingi hafi verið unnið að því innan hans að gera flokkinn stjórntækan. Afleiðingin sé sú að Píratar líti út eins og stjórnmálaflokkur.
Hann segir Pírata þrátt fyrir það vera að breyta stjórnmálunum og séu ekki gamaldagsstjórnmálaflokkur. „Leiðin framundan er eitthvað nýtt og Píratar eru að draga þann vagn. Aðrir eru að fylgja. Þess vegna sýnist kannski líka vera minni munur.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem Björn Leví birtir á Facebook. Tilefnið er viðtal við Birgittu Jónsdóttur, einn af stofnendum og fyrrverandi kaftein Pírata, í Reykjavík Grapevine þar sem hún útskýrir að ein af ástæðunum fyrir því að hún hætti í flokknum sé sú að hann hafi breyst úr hreyfingu í stjórnmálaflokk.
"One of the reasons why I left the Pirate Party is it was increasingly feeling like a political party, and increasingly...
Posted by Björn Leví Gunnarsson on Saturday, April 21, 2018
Björn Leví segir í stöðuuppfærslunni að Birgitta komi „hlutum af stað og fer“. Markmið hennar hafi verið að koma Pírötum af stað og gera flokkinn stjórntækan. „Það tókst. Afleiðingin er jú að Píratar líta út fyrir að vera stjórnmálaflokkur. Við erum hins vegar að breyta stjórnmálunum, þannig að það er amk. ekki hægt að segja að Píratar séu gamaldags stjórnmálaflokkur. Leiðin framundan er eitthvað nýtt og Píratar eru að draga þann vagn. Aðrir eru að fylgja. Þess vegna sýnist kannski líka vera minni munur.“