Miðflokkurinn vill að RÚV verði tekið af fjárlögum og að ríkisfjölmiðillinn fjármagni sig einvörðungu með áskriftarsölu og á auglýsingamarkaði. Þá vill flokkurinn einnig að virðisaukaskattur á áskriftum fjölmiðla verði afnumin. Þetta er meðal þess sem kemur fram í landsfundarályktunum flokksins.
Í fjölmiðlahluta ályktunarinnar segir enn fremur að óheimilt eigi að vera að veita fé af fjárlögum ríkisins til reksturs RÚV. „Rás 1 verði verði rekin sem öryggis og menningarstöð og tryggt verði að útsendingar nái til allra landsmanna, landsins alls og landhelgi. Stöðin verði rekin fyrir fé frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti og á ábyrgð ráðherra. Stofnaður verði sérstakur samkeppnissjóður er hafi það hlutverk að fjármagna innlenda framleiðslu fræðslu, menningar- og skemmtiefnis fyrir fjölmiðla (útvarp, sjónvarp og dagblöð) Sjóðurinn fái á ári að lágmarki sama fjármagn og RUV ohf. hafði til framleiðslu og/eða kaupa á innlendu dagskrárefni árið 2018.“
Vill gefa almenningi hlut í banka og fjölga lögreglumönnum
Flokkurinn vill auk þess að lögreglumönnum verði fjölgað út um allt land, að regluverk atvinnulífsins verði einfaldað og að lagt verði áherslu á uppbyggingu hugvitsgreina. Miðflokkurinn vill tafarlaust afnema skerðingar lífeyris krónu á móti krónu, setja þak á vexti af nýjum verðtryggðum lánum, taka húsnæðisliðinn út úr neysluvísitölunni og heimila áfram að nýta séreignasparnað til að greiða inn á húsnæðislán.
Þá vill flokkurinn að Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabankanum og að almenningi verði færður hlutur í banka í eigu ríkisins, en það var helsta kosningaloforð Miðflokksins fyrir kosningarnar 2017.
Birgir og Gunnar Bragi takast á
Einn er í framboði til formanns Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, stofnandi og sitjandi formaður flokksins. Tveir bjóða sig fram til varaformanns, Birgir Þórarinsson, þingmaður Suðurkjördæmis, og Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. Þau Anna Kolbrún Árnadóttir þingmaður Norðausturkjördæmis, Jonas Henning fjárfestir sem skipar þriðja sæti á lista Miðflokksins í Hafnarfirði og Sólveig Bjarney Daníelsdóttir aðstoðardeildarstjóri á LSH sem skipar fjórða sæti á lista Miðflokksins í Reykjavík bjóða sig fram til embættis 2. varaformanns flokksins.
Kosningarnar á landsþinginu fara fram í dag.