Lífeyrissjóði verslunarmanna hafa ekki borist tilboð í hlutabréf sjóðsins í HB Granda, en sjóðurinn á 13,88 prósent hlut í félaginu, og hefur verið næst stærsti hluthafi félagsins.
Þetta kemur fram í svari frá sjóðnum við fyrirspurn Kjarnans.
Eins og greint var frá í síðustu viku, þá gerði Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og aðaleigandi Brims, tilboð í 34,1 prósent hlut í HB Granda sem áður var að mestu leyti í eigu Kristjáns Loftssonar, í gegnum Vogun hf., og einnig Halldórs Teitssonar.
Tilboðið var upp á 16 prósent meira en sem nam markaðsvirði á þeim tíma, og var upp á 21,7 milljarða króna. Markaðsvirði félagsins miðað við það, er upp á 65 milljarða króna.
Yfirtökuskylda myndaðist við þessi viðskipti, en hún virkjast við viðskipti með 30 prósent hlut eða meira í skráðu félagi. Guðmundi ber því að gera hluthöfum tilboð í allt hlutafé félagsins, innan 30 daga, á sama verði og nam verðinu í fyrrnefndum viðskiptum.
Markaðsvirði HB Granda er nú 61,2 milljarðar og hefur verðmiðinn hækkað um meira en 6 milljarða frá því að tilboð Guðmundar varð opinbert.
Guðmundur sagði í viðtali við Morgunblaðið að lánastofnanir kæmu að því að fjármagna viðskiptin, en hann sagðist enn fremur vonast til þess að núverandi hluthafar myndu vilja vera áfram í hluthafahópnum.
Aðalfundur félagsins fer fram 4. maí.