Í það minnsta 60 ljósmæður munu leggja niður störf í dag og ætla ekki að taka til starfa á nýjan leik, fyrr en samningur við Sjúkratryggingar Íslands um greiðslur til þeirra hafa verið undirritaðar og staðfestar.
Minnst 60 af rúmlega 90 ljósmæðrum í heimaþjónustu munu leggja niður störf frá.
Eins og kunnugt er, hafa kjaraviðræður ljósmæðra og ríkisins staðið yfir mánuðum saman án þess að samkomulag haf náðst. Fundað hefur verið hjá Ríkissáttasemjara en það hefur engum árangri skilað.
Þá hefur Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagt að kröfurnar sem ljósmæður hafa komið fram með, séu óaðgengilegar þar sem þær myndu hafa slæm áhrif á vinnumarkaðinn í heild sinni.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir í Morgunblaðinu í dag, að aðgerðir ljósmæðra í heimaþjonustu komi henni á óvart.
Aðspurð um ástæðu þess, að tilbúinn samningur Sjúkratrygginga við ljósmæður í heimaþjónustu hafi legið svo lengi óundirritaður á hennar borði, segir Svandís að bera þurfi tiltekna þætti samningsins undir Landspítalann og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, áður en hægt sé að ganga endanlega frá honum.
Til stendur að funda um málið í dag, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.