Um 70 prósent 20 íslenskra fyrirtækja, sem annað hvort eru skráð á hlutabréfamarkað eða eru banka, greiða út kaupauka, oft einnig kallaðir bónusar. Þetta er niðurstaða könnunar á meðal 20 íslenskra fyrirtækja sem Talnakönnun gerði í mars og apríl 2018. Könnunin var gerð að beiðni Samtaka sparifjáreigenda.
Þrettán fyrirtækjanna segjast greiða út kaupauka, sex gera það ekki. Því greiða 68, 4 prósent þeirra fyrirtækja sem svöruðu út kaupauka.
Eitt fyrirtækjanna sem spurt var, Kvika banki, svaraði ekki spurningunni en greinir samt sem áður frá því í ársreikningi að það greiði út kaupauka. Ef það er meðtalið þá er hlutfall þeirra fyrirtækja sem könnunin náði til sem greiða kaupauka 70 prósent.
Fyrirtækin 13 sem greiða út kaupauka eru Icelandair, Reitir, ™, Origo, Reginn, Arion banki, N1, Eimskip, Össur, Marel, Skeljungur, Vodafone og Hagar. Líkt og áður sagði svaraði eitt fyrirtæki ekki, Kvika banki. Hann var skráður á First North markaðinn í mars meðan á könnunartímabilinu stóð. Í ársreikningum Kviku kemur hins vegar fram að fyrirtækið veitir starfsmönnum kauprétt á hlutabréfum.
Mismunandi útfærslur
Í niðurstöðu könnunarinnar kemur fram að hjá tveimur fyrirtækjum fá allir starfsmenn kaupauka, en hjá tíu er það forstjóri og jafnmörg eru með yfirstjórnendur. „Í einhverjum tilvikum er mynstrið flóknara. Stjórn fær ekki kaupauka í neinu fyrirtækjanna,“ segir í niðurstöðu hennar.
Kaupaukar annarra starfsmanna en forstjóra eru í flestum tilvikum innan við 25 prósent af launum. Þrjú fyrirtæki miða við hærri tölu sem mögulega kaupauka og hjá tveimur gildir engin ákveðin regla.
Í skýrslu sem Talnakönnun hefur gert um úttekt á kjörum og kaupaukum stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum, er meðal annars fjallað um könnunina. Þar segir að algengast sé að miða útreikning kaupauka við blöndu af þeim kostum sem boðið var upp á, en fjögur fyrirtæki af 13 miða aðeins við hagnað, eitt við sölu og eitt hefur annars konar viðmið, sem þó er hagnaðartengd.
Flest fyrirtækin greiða út kaupauka í lok hvers árs, fjögur dreifa greiðslum á nokkur ár, þrjú eru með kaupréttarsamninga og tvö greiða út bónusa ársfjórðungslega.
Afgerandi niðurstaða
Hjá sex af þeim þrettán fyrirtækjum sem segjast greiða út kaupauka eru þeir innan við 25 prósent af föstum launum, sem er hámark samkvæmt lögum hjá fjármálafyrirtækjum. Hjá þremur geta þeir legið milli 25 og 50 prósent, hjá tveimur milli 50 og 100 prósent og tvö hafa ekki ákveðna reglu.
Niðurstaða könnunarinnar því afgerandi: íslensk fyrirtæki nýta enn mörg kaupaukakerfi. Þau virðast hins vegar miklu einfaldari en bankarnir voru með fyrir hrun og bónusum meira í hóf stillt. í samantektarkafla skýrslu Talnakönnunar segir: „Afar mikilvægt er fyrir markaðinn og almenna umfjöllun um fyrirtæki að sem mest gagnsæi gildi um öll kjör í fyrirtækjum. Annað vekur tortryggni. “
Skýrslan kynnt á morgun
Skýrslan um kaupauka í íslenskum fyrirtækjum verður kynnt á fundi í hádeginu á morgun, þriðjudaginn 24. apríl. Þar mun Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og stofnandi Viðreisnar, gera grein fyrir efni skýrslunnar og Katrín Ólafsdóttir, vinnumarkaðshagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík tala. Fundurinn fer fram í Öskju, Háskóla Íslands, hann er öllum opinn og hefst klukkan 12. Fundarstjóri verður Vilhjálmur Bjarnason.
Um er að ræða annan fundinn í fundaröðinni „Aldrei aftur“ þar sem Samtök sparifjáreigenda minnast þess að í ár eru tíu ár liðin frá hruni.
Í tilkynningu vegna fundarins segir: „Eftir hrun var fljótlega farið að greiða kaupauka hjá íslenskum fyrirtækjum þó ekki væru þeir í sama mæli og tíðkast hafði áður. Einnig varð fljótlega ljóst að íslenskir forstjórar ætluðu sér ekki að búa við „lág“ laun og því fóru tekjur stjórnenda fljótlega hækkandi, langt umfram þær launahækkanir sem almenningur hefur mátt sætta sig við. Því þótti Samtökum sparifjáreigenda aftur komið tilefni til að gera úttekt á kjörum og kaupaukum stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum. Því var meðfylgjandi úttekt gerð.“
Þar er einnig lagt til, í nafni þess að auka á gegnsæi og hreinskipta umræðu um kaup og kjör í landinu, að „auk hlutafélaga skráðra á markaði þá myndu samtök, félög og stofnanir sem eiga allt sitt undir framlögum hins opinbera og/eða velvilja almennings, greini opinberlega frá því hvað framkvæmdastjóri og helstu stjórnendur þeirra eru með í laun. Hér mætti nefna íþróttafélög, góðgerðafélög og hagsmunafélög eða félög á borð við t.d. Mjólkursamsöluna, fyrirtæki sem hefur risið og þrifist í skjóli beinnar og óbeinnar ríkistryggðrar einokunar.“